Innlent

Sunda­braut og Fljótagöng verk­efni innviðafélagsins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ein tillagan að Sundabrú gerir ráð fyrir þrjátíu metra hárri brú yfir Kleppsvík.
Ein tillagan að Sundabrú gerir ráð fyrir þrjátíu metra hárri brú yfir Kleppsvík. Efla verkfræðistofa

Fjármálaráðherra stefnir að því að innviðafélag um stórframkvæmdir ríkisins verði stofnað í vor. Ráðgert er að fyrstu verkefni félagsins verði Ölfusárbrú, Sundabraut og Fljótagöng.

Ríkisstjórnin kynnti fyrir jól þá ákvörðun að stofna innviðafélag um stærri samgönguframkvæmdir. Við spurðum Daða Má Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, um þýðingu innviðafélagsins.

„Kannski stærsta breytingin verður sú að við getum ráðist í þau stóru verkefni sem hefur svona verið ákveðið vandamál að fá af stað. Það er erfitt að fara í langt verkefni sem þarf að fjármagna síðan eitt ár í einu.

Þannig að okkar ætlun er að þetta innviðafélag geti þá hafið þessa uppbyggingu stærri framkvæmda og ákveðinn fyrirsjáanleika líka í uppbyggingu þeirra,“ segir ráðherrann í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra.Bjarni Einarsson

Innviðafélagið verður að fullu í eigu ríkisins. Fyrirhugað er að ríkið leggi til árlegt eiginfjárframlag en jafnframt fái það tekjur af vegtollum. Einnig komi til lántaka með ríkisábyrgð og þá geti lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar komið að fjármögnun.

Daði Már vonast til að þannig takist að rjúfa þá kyrrstöðu sem verið hafi, svo sem í jarðgangagerð.

„Ég myndi segja að það að vinna aftur upp slakann, sem varð til hérna eftir bankahrunið, það er stóra verkefnið. Við höfum aldrei náð okkur almennilega á strik eftir það.

Það hefur auðvitað með það að gera að það hafa riðið yfir áföll, en líka bara að það er auðvelt að skera niður fjárfestingarverkefnin. Það kemur bara í bakið á þér. Og þessu þurfum við að snúa við.“

Nýja Ölfusárbrúin verður sett undir innviðafélagið.Vegagerðin

Ráðgert er að nýja Ölfusárbrúin færist undir félagið. En síðan taki það að sér Sundabraut, Fljótagöng og næstu jarðgöng samkvæmt samgönguáætlun.

-En hvenær gæti það gerst að innviðafélagið verði tilbúið að setja framkvæmdirnar af stað?

„Þetta er á þingmálaskrá núna í vor, þannig að stofnun félagsins verður núna í vor,“ svaraði Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.


Tengdar fréttir

Við gætum farið að aka Sundabraut eftir sjö ár

Framkvæmdir við Sundabraut gætu hafist eftir tvö ár, gangi áform stjórnvalda eftir. Þeir sem vilja lýsa skoðun sinni hafa núna sex vikna frest, til 30. nóvember, til að koma áliti sínu á framfæri.

Segir göng undir Fjarðarheiði ekki fjárhagslega forsvaranleg

Ríkisstjórnin er einhuga um að breyta forgangsröðun jarðganga og setja Fljótagöng í fyrsta sæti og hafa þingflokkar stjórnarinnar samþykkt tillöguna. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að Fjarðarheiðargöng hafi ekki verið fjárhagslega forsvaranleg.

Fyrsta skóflustungan að nýrri Ölfusárbrú

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að nýrri Ölfusárbrú í dag. Þá var undirritaður verktakasamningur í Golfskálanum á Selfossi.

Fern ný jarðgöng undirbúin meðan Fjarðarheiðin bíður

Fern ný jarðgöng verða undirbúin, Fossvogsbrú sett af stað og lykilvegir byggðir upp á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi frestast hins vegar, samkvæmt samgönguáætlun næsta árs, sem kynnt var í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×