Enski boltinn

Sonur Wayne Rooney spilaði á Old Trafford

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kai Rooney er vinsæll meðal stuðningsmanna Manchester United.
Kai Rooney er vinsæll meðal stuðningsmanna Manchester United. James Gill - Danehouse/Getty Images

Kai Rooney, sonur Manchester United goðsagnarinnar Wayne, fetaði í fótspor föður síns og spilaði með Manchester United á Old Trafford í gærkvöldi, í sigri gegn Derby County í FA bikar ungmenna.

Darren Fletcher er aftur orðinn þjálfari u18 ára liðsins og veitti Kai Rooney traustið.

Sextán ára gamli hægri kantmaðurinn kom inn á 99. mínútu í framlengingu þegar staðan var markalaus. Sjálfsmark hjá Derby County og mark frá Chido Obi með aðeins þriggja mínútna millibili skilaði United síðan sigrinum. Derby minnkaði muninn undir lokin en það var of seint.

Um tvö þúsund stuðningsmenn risu á fætur og sungu: „Rooney, Rooney!“ þegar Kai komst í snertingu við boltann í fyrsta sinn og sólaði varnarmann.

Þetta var tilfinningarík stund fyrir Rooney fjölskylduna en faðirinn Wayne og móðirin Coleen voru uppi í stúku ásamt öðrum börnum sínum þegar elsti sonurinn spilaði í fyrsta sinn í Leikhúsi Draumanna.

Wayne Rooney sat reyndar ekki með fjölskyldunni heldur við hlið Michael Carrick og Jonny Evans í stjórnarsvítunni.

Kai Rooney spilar vanalega fyrir u16 ára lið Manchester United en er strax byrjaður að stíga sín fyrstu skref með u18 ára liðinu og hefur skorað tvö mörk í ensku ungmenna úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×