Sport

Með hendur fyrir aftan bak í fimm hundruð metra hæð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alex Honnold er djarfari en flestir.
Alex Honnold er djarfari en flestir. netflix

Alex Honnold afrekaði enn eitt ótrúlega klifrið í nótt, í beinni útsendingu á Netflix, þegar hann klifraði 508 metra háan skýjakljúf í Taipei án tryggingar. Hann lék sér að því að setja hendur fyrir aftan bak rétt áður en hann komst á toppinn. 

101 hæða byggingin er sú hæsta í Taívan og var eitt sinn sú hæsta á heimsvísu, frá 2006-10, og er í dag sú ellefta hæsta í heimi.

Honnold klifrar tryggingalaust, án nokkurs öryggisbúnaðar, kaðla, belta eða neta. Frjáls sem fuglinn ef hann fellur. 

Kalktunna hangir utan á Honnold og er eina hjálpartækið sem hann notar.

Hann þurfti að glíma við krefjandi aðstæður. Klifrið átti að gerast í gær en því þurfti að fresta vegna rigningar. Byggingin er klædd gleri, áli og stáli þannig að sem betur fer skein sólin í dag og þurrkaði sleipa dropa. Vindurinn í borginni var þó ekki til þess gerður að hjálpa Honnold. 

Mikill mannfjöldi var svo mættur þegar hann hóf klifrið, sem er óvenjulegt fyrir Honnold. 

Hann klifrar vanalega á afskekktari stöðum og er frægastur fyrir að klifra El Capitan tindinn í Yosemite fjallgarðinum. Úr því var gerð heimildarmyndin Free Solo sem vann Óskarsverðlaunin árið 2019.

Klifrið tók í heildina ekki nema um eina klukkustund og fjörutíu mínútur. Netflix sýndi frá því í beinu streymi með tíu sekúndna frestun en fjölskylda Honnold, kona hans og tvö börn voru á svæðinu og fylgdust með gangi mála. 

Rétt áður en Honnold komst á toppinn ákvað hann að grínast aðeins og skjóta áhorfendum skelk í bringu með því að setja hendur fyrir aftan bak. Hann hlóð svo í sjálfu þegar á toppinn var komið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×