Fótbolti

Víkingur og Valur mætast í úr­slitum Reykjavíkurmótsins

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Víkings Reykjavíkur í Bestu deildinni á síðasta tímabili
Frá leik Víkings Reykjavíkur í Bestu deildinni á síðasta tímabili Vísir/Ernir Eyjólfsson

Víkingur Reykjavík og Valur munu leika til úrslita á Reykjavíkurmóti kvenna í fótbolta. Þetta varð ljóst eftir sigur beggja liða í undanúrslitum mótsins í kvöld.

Víkingur Reykjavík valtaði yfir Fram en liðin mættust á Víkingsvelli í kvöld og urðu lokatölur 6-1 Víkingum í vil. 

Hin sautján ára gamla Arna Ísold Stefánsdóttir fór á kostum í leiknum og skoraði þrennu fyrir Víkinga en að auki skoraði Bergdís Sveinsdóttir tvö mörk og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir eitt mark. 

Katrín S. Vilhjálmsdóttir skoraði eina mark Fram í leiknum. Víkingskonur hafa verið á fljúgandi siglingu á undirbúningstímabilinu til þess og freistar liðið þess að vinna Reykjavíkurmótið nú þegar aðeins úrslitaleikurinn er eftir.

Þar mætir Víkingur Reykjavík liði Vals sem hafði betur gegn Þróttir Reykjavík í kvöld í leik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni. Mörk frá Valskonunni Margréti Brynju Kristinsdóttur annars vegar og Þróttaranum Kayle Marie Rollins, sáu til þess að leikar stóðu jafnir eftir venjulegan leiktíma. 

Var því gripið til vítaspyrnukeppni og þar hafði Valur betur, 3-2, en ekki fást upplýsingar um vítaspyrnukeppnina í gegnum leikskýrslu leiksins á vef KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×