Innlent

Kannast ekki við til­raunir til að stofna nýtt Vélfag

Kjartan Kjartansson skrifar
Alfreð Tulinius (í forgrunni), stjórnarformaður Vélfags, á fundi með starfsmönnum í vetur.
Alfreð Tulinius (í forgrunni), stjórnarformaður Vélfags, á fundi með starfsmönnum í vetur. Vélfag

Stjórnarformaður Vélfags segist ekki hafa beinar upplýsingar um að reynt hafi verið að stofna nýtt félag fyrir starfsemina eftir að fjármunir þess voru frystir. Hann hafi fjarlægt tölvur úr höfuðstöðvum fyrirtækisins að beiðni eigenda þess. Lögmaður Vélfags segir fréttir um slíkt „þvælu“.

Héraðssaksóknari handtók fimm stjórnar- og starfsmenn Vélfags og gerði húsleit á nokkrum stöðum á miðvikudag í síðustu viku. Rannsókn hans er sögð beinast að meintum brotum á þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins.

Fjármunir Vélfags voru frystir í fyrra vegna tengsla Ivans Kaufmann, meirihlutaeiganda fyrirtækisins, við rússneskt útgerðarfyrirtæki sem er á þvingunarlista ESB vegna tilrauna Rússa til að grafa undan stöðugleika í Evrópu. Borgaraleg fiskiskip rússneska félagsins eru talin hluti af svonefndum skuggaflota Rússa sem þeir nota til njósna og skemmdarverka.

Stjórnarformaður Vélfags, stjórnarmaður og þrír starfsmenn voru handteknir í aðgerðunum í síðustu viku.

Væru hagsmunaárekstrar að vinna að öðru félagi

Sama dag og aðgerðir héraðssaksóknara fóru fram sagði Vísir frá því að lykilstjórnendur hjá Vélfagi hefðu unnið að því að stofna nýtt félag utan um starfsemina með leyfi Kaufmann. 

Þá hefðu tölvur sem á voru teikningar að hugverki fyrirtækisins verið fjarlægðar úr höfuðstöðvunum á Akureyri eftir að starfsemin var stöðvuð og starfsfólki sagt upp í nóvember.

Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Vélfags sem hefur stöðu sakbornings í rannsókninni, segist ekki hafa neinar „beinar upplýsingar“ um að unnið hafi verið að því að stofna nýtt félag utan um starfsemi Vélfags á bak við tjöldin.

Sem stjórnarformaður Vélfags hvorki geti hann sjálfur né megi vera tengdur öðru félagi sem ætlaði sér slíkt.

„Ég hef alveg verið skýr með það að ef ég væri eitthvað tengdur einhverju svoleiðis félagið, annað hvort baksviðs eða beint, þá væru það klárlega hagsmunaárekstar við það sem mér er uppálagt að bjarga Vélfagi og borga skuldir vegna þess að í því felst að hámarka söluandvirði á því sem ég get fengið,“ segir Alfreð.

Varðandi rannsókn héraðssaksóknara segist Alfreð ekki átta sig á viðfangsefni hennar að öðru leyti en að hún snúist um meint brot á þvingunaraðgerðunum. Hann fullyrðir að enginn hjá Vélfagi hafi brotið af sér á nokkurn hátt.

„Tóm þvæla“

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Vélfags, segir í tölvupósti til Vísis að stjórn fyrirtækisins hafi kynnt utanríkisráðuneytinu í desember að það hygðist selja allar rekstrareignir og hvernig andvirði þeirra yrði varið til að greiða skuldir. 

Þeir stjórnendur Vélfags sem voru nefndir í frétt Vísis hefðu ekki getað komist yfir eignir Vélfags.

Sigurður G. Guðjónsson er lögmaður Vélfags. Hann segir fréttir um að unnið hafi verið að því að koma starfsemi Vélfags yfir í annað félag „þvælu“.Vísir/Einar

„Fréttin þín um að unnið hafi verið að ráðstöfun eigna með þeim hætti sem frétt þín fjallar um er tóm þvæla, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir lögmaðurinn.

Fjarlægði tölvur að upplagi eigenda

Sigurður segir ennfremur að tölvur með mikilvægum gögnum Vélfags hafi verið teknar til hliðar til að vernda hagsmuni fyrirtækisins.

Alfreð staðfestir að þrjár eða fjórar turntölvur hafi verið fjarlægðar að hans „prívatbeiðni“. Til skýringar segir hann mikla „tilfinningasemi“ hafa verið í gangi í Vélfagi og lyklar að húsnæðinu hafi verið út um allt. Það hafi tekið tíma að safna saman öllum lyklum og loka fyrir aðgang að öryggiskerfi hússins.

„Að upplagi eigenda fyrirtækisins var ég beðinn um að taka vissa hluti til hliðar sem ég og gerði,“ segir stjórnarformaðurinn.

Höfuðstöðvar Vélfags á Akureyri. Félagið er einnig með starfsstöð á Ólafsfirði. Húsleit var gerð fyrir norðan í aðgerðum héraðssaksóknara í síðustu viku.Vélfag

Spurður sérstaklega hvort að Kaufmann hafi óskað eftir þessu segir Alfreð að það hafi verið að beiðni hluthafa Vélfags.

„Ég kom þessu þannig fyrir vind þannig að það væri á öruggum stað,“ segir hann.

Þegar Alfreð ætlaði að hefja starfsemi og afgreiða pantanir sem hann taldi sig hafa heimild til að gera fyrr í þessum mánuði hafi hann látið skila tölvunum aftur í fyrirtækið.

Sagðir tengdir rússneskum ólígörkum

Ástæða þess að fjármunir Vélfags voru frystir voru ætluð tengsl Ivans Kaufmann, sem á yfir áttatíu prósent hlutafjár í fyrirtækinu, við rússneska útgerðarfélagið Norebo JSC. Dóttufélag þess eignaðist meirihluta hlutafjár í Vélfagi árið 2021. Síðar voru hlutirnir í Vélfagi færðir til félags í Hong Kong sem tengist Norebo.

Kaufmann keypti Hong Kong-félagið aðeins fjórum dögum áður en Norebo JSC var sett á þvingunarlista Evrópusambandsins síðasta vor. Hann hefur sagst hafa verið grunlaus um þvingunaraðgerðirnar.

Arion banki og utanríkisráðuneytið telja að ekki hafi verið sýnt fram á að Kaufmann sé ekki leppur fyrir Norebo. Í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir því að það synjaði Vélfagi um áframhaldandi undanþágu frá þvingunaraðgerðum í nóvember kom fram að Kaufmann tengdist Orlov-feðgum, eigendum Norebo.

Þá fetti ráðuneytið fingur út í skilmála viðskipta með hlutina í Vélfagi sem voru taldir óeðlilegir. Þannig hefði Kaufmann ekki greitt kaupverð á félaginu í Hong Kong sem heldur utan um hlutaféð í Vélfagi.

Kaufmann var einnig talinn hafa tengsl við rússnesku öryggisþjónustuna FSB sem er sögð lykilgerandi í óhefðbundnum hernaði Rússa gegn Evrópu.

Alfreð var í rökstuðningi ráðuneytisins einnig sagður tengdur Norebo vegna viðskipta skipahönnunarfyrirtækis hans við rússneska útgerðarfélagið. Nautic Rus, rússneskt félag sem Alfreð á hlut í, hannar sex skip fyrir Norebo JSC.

Stjórnarformaðurinn segir við Vísi að það hafi verið Vitalí Orlov, eigandi Norebo JSC, sem fékk hann til að taka sæti í stjórn Vélfags sumarið 2023. Það var á sama tíma og hlutirnir í Vélfagi færðust frá dótturfélagi Norebo til félagsins í Hong Kong sem Nikita Orlov, sonur Vitalí, stýrði. Ári síðar tók Alfreð við stjórnarformennsku í Vélfagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×