Erlent

Fundu fjar­lægustu vetrar­brautina hingað til

Samúel Karl Ólason skrifar
Vetrarbrautin MoM-z14 er í meira en þrettán milljarða ljósára fjarlægð. Það þýðir að ljósgeislarnir sem lentu á linsu James Webb geimsjónaukans þegar myndirnar voru teknar lögðu af stað þegar alheimurinn var einungis um 280 milljón ára gamall.
Vetrarbrautin MoM-z14 er í meira en þrettán milljarða ljósára fjarlægð. Það þýðir að ljósgeislarnir sem lentu á linsu James Webb geimsjónaukans þegar myndirnar voru teknar lögðu af stað þegar alheimurinn var einungis um 280 milljón ára gamall. NASA, ESA, CSA, STScI, R. Naidu (MIT),

Geimvísindamenn hafa fundið fjarlægustu vetrarbraut sem vitað er um. Hún er í um 13,5 milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni en það þýðir að ljósið sem berst nú til jarðarinnar sýnir hvernig vetrarbrautin leit út þegar alheimurinn var einungis um 280 milljón ára gamall.

Alheimurinn er talinn um 13,8 milljarða ára gamall.

Vetrarbrautin ber nafnið MoM-z14 og var hún fundin með James Webb-geimsjónaukanum (JWST).

Á vef Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) segir að birtan frá vetrarbrautinni komi vísindamönnum á óvart. Það sama eigi við aðrar sem fundist hafa með JWST. Þær séu allar bjartari, þéttari og virðist virkari en talið var að þær gætu verið svo fljótt eftir stórahvell.

Rohan Naidu, vísindamaðurinn sem leiddi hópinn sem fann MoM-z14, segir að JWST hafi gert mönnum kleift að sjá mun lengra en áður var hægt og að það sem þeir sjái líkist ekkert því sem búið var að spá fyrir um. Það sé krefjandi en í senn gífurlega spennandi.

Naidu leiddi einnig hóp vísindamanna sem fann fyrir nokkrum árum vetrarbrautina GLASS-z13 en hún var þá sú vetrarbraut sem fundist hefur lengst frá okkar vetrarbraut en MoM-z14 er „einungis“ tuttugu milljón ljósárum lengra í burtu.

Sjá einnig: Uppgötvuðu elstu stjörnu­þoku sem hefur sést

Hægt er að áætla fjarlægð vetrarbrauta út frá ljósinu frá þeim. Pascal Oesch, sem kom einnig að rannsókninni, segir að framkvæma þurfi frekari rannsóknir á vetrarbrautinni til að ganga úr skugga um að vitað sé nákvæmlega hvað þeir séu að horfa á og hvenær.

Sjá einnig: Fimm­tíu þúsund vetrar­brautir á einni mynd

Vísindamennirnir segja að JWST hafi varpað ljósi á sífellt stækkandi hóp vetrarbrauta sem séu bjartari en spár gerðu ráð fyrir. Þær séu þegar orðnar hundrað sinnum fleiri en rannsóknir bentu til áður en JWST var skotið á loft.

Mikið nítrógen virðist vera í MoM-z14 en þegar alheimurinn var einungis 280 milljóna ára gamall eiga ekki að hafa verið til stjörnur sem gætu framleitt svo mikið nítrógen. Ein kenning sem vísindamennirnir eru að skoða snýst um að í hinum unga alheimi hafi myndast gríðarlega stórar stjörnur sem gætu hafa framleitt mun meira nítrógen en hingað til hefur þekkst.

Áhugasamir geta séð fjölda mynda sem teknar hafa verið með JWST í myndbandi ESA hér að neðan.


Tengdar fréttir

Webb smellti af nýbura­myndum

Nýjar myndir öflugasta geimsjónauka í heimi sem birtar voru í dag sýna þúsundir nýfæddra stjarna í risavaxinni stjörnumyndunarþoku í þúsunda ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Rýna í inn­yfli deyjandi reiki­stjörnu

Fjarreikistjarna sem er að gufa upp og skilur eftir sig hala utan um móðurstjörnu sína er sögð gefa vísindamönnum einstakt tækifæri til þess að rannsaka efnasamsetningu bergreikistjarna. Aðeins örfáar deyjandi reikistjörnur af þessu tagi hafa fundist til þessa.

Myndaði segulljós Neptúnusar í fyrsta skipti

Óvenjuleg segulljós Neptúnusar hafa verið mynduð í fyrsta skipti með James Webb-geimsjónaukanum. Athuganirnar leiddu einnig í ljós að efsti hluti lofthjúps reikistjörnunnar hefur kólnað um hundruð gráða.

Webb sér al­heiminn einnig þenjast út á vaxandi hraða

Athuganir öflugasta geimsjónauka sögunnar staðfesta enn á ný að alheimurinn þens út hraðar en staðallíkan eðlisfræðinnar getur útskýrt. Eftir sitja stjarneðlisfræðingar í súpunni, engu nær um hvers vegna herðir á útþenslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×