Erlent

Njósnastjóri Trumps leitar að kosningasvindli

Samúel Karl Ólason skrifar
Tulsi Gabbard er yfirmaður leyniþjónusta Bandaríkjanna en í gær var hún stödd í Georgíu þar sem starfsmenn FBI gerðu húsleit hjá kjörstjórn Fulton-sýslu.
Tulsi Gabbard er yfirmaður leyniþjónusta Bandaríkjanna en í gær var hún stödd í Georgíu þar sem starfsmenn FBI gerðu húsleit hjá kjörstjórn Fulton-sýslu. AP/Mike Stewart

Tulsi Gabbard, yfirmaður leyniþjónusta Bandaríkjanna, leiðir umfangsmikla leit ríkisstjórnar Donalds Trump að vísbendingum um umfangsmikið kosningasvindl sem forsetinn segir að hafi kostað sig sigur í forsetakosningunum 2020. Trump hefur ítrekað haldið því fram að sú hafi verið raunin en hvorki hann né bandamenn hans hafa getað fært almennileg rök fyrir því.

Gabbard hefur varið undanförnum mánuðum í þessa rannsókn á kosningunum sem Trump tapaði fyrir Joe Biden. Starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) gerðu í gær húsleit hjá kjörstjórn í Fulton-sýslu í Georgíu og var hún stödd þar.

AP fréttaveitan segir að leitarheimildin sem húsleitin byggir á sé ekki opinber. Vera Gabbard á staðnum hefur þó vakið mikla athygli og spurningar.

Hefðbundið starf yfirmanns leyniþjónusta Bandaríkjanna er að tryggja að forseti hafi aðgang að bestu upplýsingum sem Bandaríkjamenn hafa svo hann geti tekið sem bestar ákvarðanir. Gabbard er sögð hafa verið sett til hliðar í hinum ýmsu utanríkismálum í Hvíta húsinu og fékk hún til að mynda ekki að vita af hernaðaraðgerðinni í Venesúela, þar sem Nicolás Maduro, forseti, var numinn á brott með hervaldi.

Heldur sér í náðinni hjá Trump

Heimildarmenn Wall Street Journal úr Hvíta húsinu segja að Gabbard hafi verið að rannsaka upplýsingar um kosningavélar í Bandaríkjunum, greint gögn frá svokölluðum sveifluríkjum og reynt að rýna í hinar ýmsu kenningar Trumps um það hvernig sigrinum á að hafa verið stolið af honum í kosningunum.

Gabbard mun einnig hafa leitað upplýsinga innan leyniþjónustusamfélagsins um möguleg afskipti erlendra ríkja af kosningunum. Ein kenningin sem bandamenn Trumps héldu á lofti um hið meinta kosningasvindl var að kosningavélar víðs vegar um Bandaríkin hefðu verið framleiddar í Venesúela og að þær hefðu verið notaðar til svindls.

Bandarískir framleiðendur þessara véla hafa höfðað mál gegn fólki og fyrirtækjum sem dreift hefur slíkum kenningum. Ein slík lögsókn endaði með því að Fox News greiddi fyrirtækinu 107 milljarða eftir sátt.

Sjá einnig: Murdoch viðurkennir að ýtt hafi verið undir lygar um kosningarnar

Gabbard er sögð ræða reglulega við Trump og Susie Wiles, áhrifamikinn starfsmannastjóra Hvíta hússins, um rannsókn hennar og stendur til að hún geri á endanum skýrslu. Heimildarmenn WSJ segja að með þessari vinnu hafi henni tekist að halda sér í náðinni hjá Trump.

Í yfirlýsingu til WSJ segir Karoline Leavitt, talskona Trumps, að ríkisstjórnin ætli að tryggja að ekki verði hægt að svindla aftur í kosningum og að Gabbard leiði þá vinnu.

Hefur einblýnt á Georgíu

Síðan hann tapaði kosningunum hefur Trump, eins og áður segir, ítrekað haldið því fram að umfangsmikið svindl hafi kostað hann sigur. Þetta hefur hann sagt í einrúmi við ráðgjafa sína og aðra en hann hefur einnig ítrekað haldið þessu fram á almannafæri og á opinberum viðburðum.

Það hefur hann til að mynda gert í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og í ræðu sem hann hélt í Davos í Sviss á dögunum. Þá staðhæfði forsetinn að von væri á ákærum vegna þessa máls.

Hann hefur oft lagt sérstaka áherslu á Georgíu, þar sem tiltölulega lítill munur var á honum og Biden. Fjölmargar rannsóknir hafa þó ekki sýnt fram á að svindl sem hafi skipt máli hafi átt sér stað. Trump var ákærður af yfirvöldum í Georgíu vegna tilrauna hans til að breyta úrslitum kosninganna þar en ákæran var að endingu felld niður.

Var það eftir að áfrýjunarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að héraðssaksóknarinn Fani Willis væri óhæf til að sækja málið gegn Trump. Hún hafði þá átt í ástarsambandi við saksóknarann sem hélt utan um málið.

Héraðssaksóknarinn sem tók við málinu felldi ákærurnar niður í nóvember 2025 og sagði að það þjónaði ekki hagsmunum Georgíu að verja næstu fimm til tíu árum í þetta mál.

Ken Block, ráðgjafi sem vann fyrir forsetaframboð Trumps fyrir kosningarnar 2020 og kom að því að rannsaka ásakanir Trump-liða um kosningasvindl, segist aldrei hafa getað staðfest ásakanir sem hefðu haft áhrif á kosningarnar.

„Það eru sex ár liðin frá þessum kosningum,“ sagði hann.

„Það er ekkert hægt að breyta þessu. Ég get ekki ímyndað mér að það séu ekki mikilvægari hlutir til að skoða.“

Hefur lengi dreift samsæriskenningum og áróðri

Gabbard er fyrrverandi þingkona fyrir Demókrataflokkinn frá Havaí og var á árum áður hermaður. Hún yfirgaf Demókrataflokkinn árið 2022 og lýsti yfir stuðningi við Trump í ágúst í fyrra.

Áður en hún var gerð að yfirmanni allra leyniþjónusta Bandaríkjanna, hafði hún enga reynslu af leyniþjónustumálum.

Hún hefur einnig í gegnum árin sýnt mikla samstöðu með Vladimír Pútín og Bashar al-Assad, einræðisherrum Rússlands og Sýrlands, í gegnum árin. Árið 2017 ferðaðist hún til Sýrlands og fundaði með Assad og einangraði hún sig þá töluvert frá öðrum innan Demókrataflokksins.

Sjá einnig: Afhjúpaði eigin njósnara á X

Gabbard hefur einnig ítrekað básúnað áróður frá Rússlandi í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu og meðal annars haldið því fram að Bandaríkjamenn hafi rekið fjölda rannsóknarstofa í Úkraínu þar sem efnavopn voru þróuð, sem er ekki rétt og samsæriskenning sem dreift hefur verið af Rússum á undanförnum árum.

Ríkismiðlar Rússlands hafa ítrekað fjallað um hana með jákvæðum hætti í gegnum árin og lýst henni sem bandamanni Rússlands.

Hún hefur gert ítrekaðar tilraunir til að grafa undan þeirri niðurstöðu leyniþjónusta Bandaríkjanna að Rússar hefðu haft afskipti af forsetakosningunum vestanhafs og freistað þess að aðstoða Trump á kostnað Hillary Clinton.

Við þær tilraunir hefur hún meðal annars sakað Barack Obama, fyrrverandi forseta, um landráð.


Sagður íhuga forsetatilskipanir fyrir kosningarnar

Trump og Repúblikanar hafa áhyggjur af þingkosningum sem fara fram í nóvember. Eins og staðan er í dag virðist staða Repúblikana ekki góð. Trump sagði á dögunum að ef Demókratar nái meirihluta í fulltrúadeildinni muni þeir líklega gera sitt besta til að ákæra hann aftur fyrir embættisbrot.

Repúblikanar á þingi í Bandaríkjunum hafa lítið sem ekkert gert til að reyna að standa í hárinu á Trump, þegar hann hefur tekið sér mikið af völdum af þinginu.

Þegar Trump ávarpaði Repúblikana í síðasta mánuði hóf hann ræðu sína á að spyrja þingmenn hvað væri eiginlega að gerast í hausnum á kjósendum.

„Ég óska þess að þið gætuð útskýrt fyrir mér hver fjandinn er að gerast í hugum almennings. Því við erum með réttu stefnumálin, ekki þeir. Þeir eru með hræðileg stefnumál.“

Seinna í ávarpinu sneri hann sér aftur að kosningunum og lýsti yfir furðu sinni á því að Repúblikanar þyrftu yfir höfuð að eiga í kosningabaráttu við Demókrata. Þá talaði hann um það að hætta við kosningarnar í nóvember.

„Ég ætla ekki að segja hættum við kosningarnar, þeir ættu að hætta við kosningarnar. Því þá segja fölsku fjölmiðlarnir: „Hann vill hætta við kosningarnar. Hann er einræðisherra“. Þeir kalla mig alltaf einræðisherra.“

Enn seinna í ræðunni sagði Trump að Repúblikanar yrðu að taka pólitíkina alvarlega. Ef þeir héldu ekki meirihluta þeirra á þingi myndu Bandaríkin fara til andskotans.

Tveir heimildarmenn WSJ úr Hvíta húsinu segja að þar hafi verið til umræðu að Trump gefi út forsetatilskipanir um þingkosningarnar komandi, eftir að Gabbard afhendi áðurnefnda skýrslu sína. Hvað þær tilskipanir eiga að snúast um sögðu þeir þó ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×