Handbolti

„Allt til staðar svo að þetta lið geti barist við Dani um gull“

Aron Guðmundsson skrifar
Svekkjandi úrslit gegn Dönum þegar Strákarnir okkar voru komnir svo nálægt úrslitaleiknum á EM. Nú er bara að taka bronsið
Svekkjandi úrslit gegn Dönum þegar Strákarnir okkar voru komnir svo nálægt úrslitaleiknum á EM. Nú er bara að taka bronsið Vísir/Vilhelm

Sérfræðingar Besta sætisins segja reynslu kvöldsins í tapleik í undanúrslitum EM gegn ríkjandi heims- og ólympíumeisturum Dana, vörðu á leið Strákana okkar sem hafi allt til alls til þess að berjast um gullmedalíur við Danina á komandi árum.

Strákarnir okkar sýndu fram á hetjulega baráttu í Boxen í kvöld gegn ógnarsterku liði Danmerkur sem spilaði á heimavelli fyrir framan tæplega 15 þúsund Dani.

Leikurinn tapaðist með þremur mörkum, 31-28, og var jafn lengi vel en Danirnir, með Mathias Gidsel, sýndu sín gæði undir lokin og bókuðu sér farmiða í úrslitaleikinn gegn Þjóðverjum Alfreðs Gíslasonar. 

Þeir Einar Jónsson og Rúnar Kárason, sérfræðingar Besta sætisins, gátu vissulega týnt til eitt og annað við leik íslenska liðsins sem hægt væri að gera betur en það er raunin með alla leiki. Stóri punkturinn er sá að liðið er á réttri leið undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar.

„Maður er alltaf einhvern veginn að sjá bætingu,“ sagði Einar Jónsson. „Við gerðum margt svo ótrúlega vel í þessum leik, það eru ótrúlega mikil þroskamerki á þessu liði.“

Tilfinningin núna sé súr, því íslenska liðið var grátlega nálægt úrslitaleiknum en frá þessu tapi verður hægt að taka mikla reynslu.

„Á þessu móti spilum við tvo svona leiki, næsti leikur á móti Króötum um bronsið er sama dæmið. Svo förum við á næsta mót, bætum við leikjum þar og svo bara vex þetta.“

Við sjáum aðeins toppinn á ísjakanum núna.

„Því þetta lið er á góðum stað, það er allt til alls, menn eru á góðum aldri. Það er allt til staðar svo þetta lið verði að berjast við Danina um gullmedalíur. Svona ef við förum aðeins fram úr sjálfum okkur hérna,“ bætti Einar við.

Nýafstaðni undanúrslitaleikurinn, á útivelli gegn ríkjandi heims- og ólympíumeisturunum, besta liði í heimi undanfarin ár, sé besti skóli sem Strákarnir okkar geti fengið á þessum tímapunkti.

„Auðvitað hefði verið geðveikt að vinna þetta, frábært og allt það en þetta er líka stór varða á þessari vegferð, við verðum bara reynslunni ríkari eftir þennan leik og þetta mót. “

Hægt er að hlusta á yfirferð Besta sætisins á leik Íslands og Danmerkur og meira til í spilaranum hér fyrir ofan eða í gegnum hlaðvarpsveitur hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×