Þessi vetur lítur út fyrir að verða óvenju harður. Ekki endilega hvað veðurfar varðar heldur eru það kosningarnar í vor sem hörkunni valda. Frambjóðendur eru nú þegar, í upphafi nóvembermánaðar, komnir í skotgrafirnar fyrir prófkjörin. Flíka sínu eigin ágæti á kostnað annarra frambjóðenda og bombardera blásaklausa kjósendur með Facebook-síðum, vefsíðum, tilkynningum, fjölskyldumyndum og innihaldslausum viðtölum í fjölmiðlum. Hver og einn reynir að sannfæra okkur um yfirburði sína fram yfir aðra valkosti til að gegna þessu fyrirlitnasta starfi á landinu. Hnútukastið er hafið og hér eru menn þó að keppa við samherja sína. Hjálpi okkur allar vættir þegar prófkjörunum lýkur og menn fara að snúa sér að því að níða skóinn af pólitískum andstæðingum.