Forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, sagði að fjöldi þeirra sem væri að flýja undan sókninni væru allt að 70.000 en mannréttindasamtök sem fylgjast með þróun mála í Sýrlandi segja töluna vera nær 40.000.
Miklar loftárásir Rússa í grennd við Aleppo hafa gert það að verkum að sýrlenski stjórnarherinn hefur getað sótt að borginni sem er sú stærsta í Sýrlandi.
Þessa dagana standa yfir í Genf viðræður um átökin í Sýrlandi, þar sem fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu eiga að reyna að finna lausnir, og hafa til þess stuðning frá Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Evrópuríkjum og fleiri löndum.
Leiðtogar heims hétu því í dag á alþjóðlegri ráðstefnu um flóttamannastrauminn frá Sýrlandi, að setja tíu milljarða dollara í verkefni til að mæta vandanum, þar af sex milljarða á þessu ári. Íslensk stjórnvöld ætla að leggja fram hálfan milljarð.