Í skýrslunni kemur fram að ítarleg skrifleg gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu. Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum og var Ólafur Ólafsson eigandi Welling & Partners.
Á blaðamannafundi í dag, sem sjá má í heild hér að neðan, sagði Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður nefndarinnar, að allt bendi til þess að ráðherrar og starfsfólk stjórnarráðsins höfðu ekki vitneskju um þessa fléttu á tíma sölunnar.
„Ólafur Ólafsson stýrði verkefninu fra A til Ö," sagði Finnur Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar, á blaðamannafundinum. Hann sagði að eftir viðtöl við aðra í S-hópnum, meðal annars Finn Ingólfsson og Kristjón Loftsson lægi fyrir að aðrir leiðtogar í hópnum vissu ekki um blekkinguna.
Fékk 102,3 milljónir dollara
Fram kom á fundinum að heildarávinningur Welling & Partners af þessu hafi numið 102,3 milljónum Bandaríkjadala að lágmarki á grundvelli baksamninga. Af þeirri fjárhæð runnu 58 milljónir dollara í aflandsfélag Ólafs Ólafssonar Marine Choice Limited.
Ítarlega er fjallað um málavexti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gerð var opinber í dag. Hún er aðgengileg á PDF formi hér að neðan.