Innlent

Dró sér 30 milljónir á átta árum

Fyrrverandi skólastjóri Rafiðnaðarskóla Íslands er ákærður fyrir að hafa dregið sér tæpar 30 milljónir króna frá skólanum á átta ára tímabili. Hann lýsti yfir sakleysi við aðalmeðferð málsins, sem stendur nú yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákæra Lögreglunnar í Reykjavík er í tveimur megin liðum, en samkvæmt henni dró skólastjórinn fyrrverandi sér um 29 milljónir króna af endurmenntunargjaldi, sem vinnuveitendur í rafiðnaði greiða til skólans. Auk þess er hann sakaður um, sem skólastjóri Viðskipta- og tölvuskólans, að hafa breytt ávísun og falsað kvittun fyrir málverk, sem hann tók við fyrir hönd skólans. Aðalmeðferð í málinu hófst í gær. Maðurinn lýsti sig saklausan af báðum ákæruatriðum fyrir dómi. Hann segir málið byggt á misskilningi, því hann hafi átt í launadeilum um greiðslur úr endurmenntunarsjóðnum og talið sig í fullum rétti til að taka við umræddum fjárhæðum. Áður hafði héraðsdómur dæmt manninn í einkamáli til að endurgreiða endurmenntunarnefndinni 32 milljónir króna, en þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar, sem tekur málið fyrir eftir að Héraðsdómur kveður upp dóm í sakamálinu. Málflutningur heldur áfram fyrir dómi í dag og ætti að ljúka síðdegis, ef allt gengur samkvæmt áætlun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×