Skoðun

Mótsagnir

Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar
Fjölmiðlamálið - Hannes Hólmsteinn Gissurarson



- Ólafur Ragnar Grímsson lýsti yfir því á þingi 1995, að hann vildi setja lög til að tryggja dreift eignarhald á fjölmiðlum. Margir aðrir vinstri menn hafa látið í ljós svipaðar skoðanir. Nýlega synjaði Ólafur Ragnar lögum, sem hafa þennan tilgang, staðfestingar. Vinstri menn fagna.

- Ólafur Ragnar Grímsson skrifaði í kennslubók 1977, að synjunarvald forsetans væri dauður bókstafur. Hann kenndi það, og hið sama gerðu aðrir kennarar í stjórnmálafræði. Nú hefur Ólafur Ragnar notað þetta vald, og sumir kennarar í stjórnmálafræði virðast ekkert sjá athugavert við það.

- Samfylkingarfólk hefur óspart vitnað til þeirra Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar um það, að forseti hafi raunverulegt synjunarvald. Það hefur hins vegar lítt haldið á lofti þeirri skoðun Ólafs og Bjarna, að ólíklegt væri og óeðlilegt, að forseti beitti þessu valdi.

- Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og aðrir forsvarsmenn R-listans settu þá reglu í almennri atkvæðagreiðslu um flugvallarmálið, að niðurstaðan yrði ekki bindandi, nema 75% atkvæðisbærra manna tækju þátt í henni. Sama fólk berst harðlega gegn hugmyndum um svipaða reglu í hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu vegna synjunar forseta.

- Samfylkingarfólk kvartar sárhneykslað undan því, að fjölmiðlalögin beinist gegn ákveðnu fyrirtæki og afgreiðslu þess hafi verið hraðað. Sama fólk beitti sér fyrir lögum gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í febrúar og fyrir því að afgreiða þau lög á tveimur sólarhringum.

- Sigurður Líndal stakk upp á því, að fjölmiðlalögin yrðu felld úr gildi og ný fjölmiðlalög samþykkt í haust. Nú segir hann, að ekki megi fella fjölmiðlalögin úr gildi og samþykkja ný fjölmiðlalög síðsumars.

- Steingrímur J. Sigfússon sagði, að eðlilegt væri að binda útvarpsleyfi við fyrirtæki, sem ekki hefðu meira en 10% markaðshlutdeild annars staðar. Nú á að breyta fjölmiðlalögunum í þá veru. Hann berst áfram gegn þeim.

Þessar mótsagnir veita vísbendingar um, að málstaðurinn sé ekki góður.




Skoðun

Sjá meira


×