Innlent

Leita langt yfir skammt

Skondnast af öllu er að nefnd um viðskiptalífið hafi sótt spillingardæmi tengd markaðsvæðingu út fyrir landsteinana, af þeim eru ærin dæmi hér," segir Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna. "Það kemur fyrst upp í hugann einkavæðing bankanna sem var sniðin beinlínis til að þjóna hagsmunum pólitískra flokka. Hins vegar óar mann við því að sjá framsóknarmenn aftur komna með vatn í munninn vegna væntanlegrar sölu Landssímans." Ögmundur segir þó margt nytsamlegt að finna í skýrslunni. "Ábendingar um innri starfsemi fyrirtækja til að stuðla að skýrari og gagnsærri reikningsskilum og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í fyrirtækjum". "Hins vegar koma alhæfingar nefndarinnar mér á óvart. Til dæmis um að hvergi sé þörf á lögum eða skorðum við hringamyndum," segir Ögmundur. "Það er greinilegt að rauði þráðurinn í þeim viðhorfum sem nú eru uppi hjá stjórnvöldum, og þar með talið þessari nefnd, er að markmiðið sé að markaðsvæða samfélagið og síðan siga lögreglu og eftirlitsaðilum á þennan sama markað til að tryggja að hann hagi sér skikkanlega."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×