Innlent

Uppstokkunarheimild heftir

Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja mun skerðast miðað við það sem tíðkast í nágrannalöndunum ef tillögur nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi verða að lögum. Þetta er mat Þórdísar J. Sigurðardóttur, eins nefndarmanna og framkvæmdastjóra Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík, Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Þórs Sigfússonar, framkvæmdastjóra Verslunarráðs, og Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar. Í skýrslunni er lagt til að Samkeppnisstofnun verði veitt heimild til þess að krefjast uppstokkun á fyrirtækjum teljist þau "hafa brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga eða skapað aðstæður sem hafi skaðleg áhrif á samkeppnina". Tekið er fram að tillagan sé í samræmi við breytingar sem nýlega voru gerðar á samkeppnisreglum Evrópusambandsins og norskum samkeppnislögum. Þá segir að sambærilegar heimildir sé að finna í fleiri löndum. Einnig er bent á að Samkeppnisstofnun hafi þegar heimild til þess að beita ákvæði sem þessu varðandi opinberar stofnanir sem stunda samkeppnisrekstur. Ekki leyft í öðrum löndum Þórdís heldur því þó fram í séráliti sínu í skýrslunni að heimild ESB gildi einungis þegar um sé að ræða viðskipti milli aðildarríkja sambandsins. ESB hafi ekki rétt á að fara inn í einstök ríki og krefjast uppstokkunar á fyrirtækjum sem starfi einungis á heimamarkaði. Þórdís bendir á að Svíar og Finnar hafi sérstaklega tekið þá ákvörðun að færa þetta úrræði ekki í lög. Samtök atvinnulífsins telja ekki þörf fyrir heimild Samkeppnisstofnunar til að brjóta upp fyrirtæki, að sögn Ara Edwald. "Menn hljóta að gjalda varhug við svo róttækum heimildum. Þetta er ekki nokkuð sem Norðurlöndin hafa verið að taka upp í landslögum sínum. Samkeppnisyfirvöld eiga að bregðast við ólögmætu atferli en ekki að ráðskast með uppbyggingu atvinnulífsins. Þau eiga að bregðast við framgöngu en ekki stærð," segir Ari. Þór Sigfússon segir að í Noregi sé ekki sátt um hvernig túlka eigi þetta nýja ákvæði í samkeppnislögunum þar. "Það er hins vegar augljóst að reglur ESB túlkast þannig að um sé að ræða fyrirtæki sem eru að misnota markaðsaðstöðu á stærri fjölþjóðlegum mörkuðum og eiga þær því ekki við um Ísland," segir Þór. Þórður Friðjónsson segir að með heimildinni kunni að vera gengið lengra en önnur lönd hafa gert. "Við þurfum að hugsa okkur um tvisvar ef tillögur og hugmyndir nefndarinnar skerði samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja. Það er brýnt að koma í veg fyrir að við tökum hér upp reglur sem ganga lengra en annars staðar er gert," segir hann. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að þessar áhyggjur séu byggðar á misskilningi. "Tillögur nefndarinnar eru í samræmi við það sem tíðkast í löndunum í kringum okkur og Evrópusambandið hefur þennan rétt. Ákvæðið verður tekið inn í EES-samninginn og því mun Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, fylgjast með því að þessu verði framfylgt á EES-svæðinu. Það verður að setja þetta í íslensk lög svo hægt verði að setja þetta inn í íslenskan rétt en Norðmenn hafa þegar gert það. Nefndin er fyrst og fremst að setja fram þessar tillögur svo regluverkið verði í samræmi við viðskiptalönd okkar og þau lönd sem við berum okkur saman við. Nefndin fór yfir reglugerðir í þeim löndum og er þetta ákvæði í samræmi við það," segir Valgerður. Megum ekki stíga skref til baka Þór Sigfússon segir að í Evrópu sé rætt um það hvernig megi örva fyrirtæki til dáða og ná þeim upp úr öldudal athafnaleysis. "Hér eru fyrirtæki að skapa störf og ráða fólk og hefja margvíslega útrás þvert á það sem er að gerast í löndunum í kring um okkur. Samkeppnin hefur sjaldan verið meiri á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins en nú. Við þessar aðstæður er óskiljanlegt að vinna þurfi skýrslu um ástand íslensks viðskiptalífs í að því er virðist mikillli leynd og án alls samráðs við aðila viðskiptalífsins," segir Þór. Þórður Friðjónsson tekur undir þetta og segir rétt að vekja sérstaka athygli á því að mörg hinna stærri fyrirtækja sem hafa sýnt mikla útrás á erlenda markaði hafi verið að ná gífurlegum árangri á því umhverfi sem hér er til staðar. "Það er ábyggilega vandfundið það land sem hefur verið jafn öflug útrás frá. Byggist það að verulegu leyti á viðskiptaumhverfinu og umbótum á efnahagskerfinu undanfarin 15 ár. Við þurfum að gæta okkar sérstaklega að stíga ekki skref til baka og gera umhverfið óþjálla og erfiðara að starfa í og skapa þannig viðskiptalífið og um leið lífskjör Íslendinga. Það er enginn vafi á því að vöxtur fyrirtækja hefur skilað öflugra efnahagslífi og betri kjörum á Íslandi," segir Þórður. Viðskiptaráðherra segir þörf á reglum Spurð um hvort raunveruleg þörf sé á því að setja lög um íslenskt viðskiptalíf þegar talið er að það hafi aldrei verið í jafnmiklum blóma segir Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, að svo sé. "Hugmyndin er sú að það séu reglur sem eru skiljanlegar og skilvirkar og sanngjarnar. Miðað við frelsi viðskiptalífsins, sem við mælum eindregið með, er ekki þar með sagt að það eigi ekki að spila eftir einhverjum reglum í þjóðfélaginu," segir hún. Aðspurð hvort ekki séu reglur nú þegar í samkeppnislögum sem veiti nægilegt aðhald í viðskiptalífinu segir Valgerður að til að mynda hafi nefndin komist að því að núverandi samkeppnislög taki á hringamyndun. "Hins vegar eru þarna ákveðnar breytingar lagðar til og þá sérstaklega á stjórnsýsluþættinum," segir hún. Gylfi Magnússon, hagfræðiprófessor í Háskóla Íslands og formaður nefndarinnar segir það mat nefndarinnar að tillögurnar eigi að styrkja íslenskt efnahagslíf. "Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að fyrirtæki sem fylgja vönduðum reglum um stjórnhætti fyrirtækja skila að jafnaði betri árangri en fyrirtæki sem ekki fylgja slíkum reglum. Fagfjárfestar eru til að mynda tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir slík fyrirtæki. Skýrar samkeppnisreglur og skilvirkt eftirlit gera fyrirtækjum kleift að keppa á eðlilegum viðskiptalegum forsendum," segir Gylfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×