Innlent

Framsóknarmenn sáttastir

Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups fyrir septembermánuð, þar sem spurt var um viðhorf til kvótakerfisins og afstöðu fólks til frjáls innflutnings á landbúnaðarvörum, eru stuðningsmenn Framsóknarflokksins sáttastir við óbreytt fyrirkomulag í þessum málaflokkum . Einungis 16 prósent þeirra sögðust styðja frjálsan innflutning á landbúnaðarvörum og um 40 prósent þeirra segjast ánægð með kvótakerfið. Framsóknarmenn skera sig nokkuð úr þegar borið er saman við heildarniðurstöður. Þannig bendir könnunin til að einungis 18 prósent þjóðarinnar séu ánægð með kvótakerfið og að þriðjungur hennar vilji gefa innflutning á landbúnaðarvörum frjálsan. Stuðningur við frjálsan innflutning fer vaxandi. Síðast var spurt um viðhorf til kvótakerfisins árið 1998. Um 64 prósent sögðust óánægð með kvótakerfið nú í stað nærri 72 pósenta árið 1998. Ánægjan hefur að sama skapi aukist um 6 prósent, en hún var 12 prósent árið 1998 og mælist 18 prósent nú. Um 18 prósent eru hvorki ánægð né óánægð með kvótakerfið. Sjálfstæðismenn eru næstánægðastir með kerfið, á eftir framsóknarmönnum, en um 29 prósent þeirra sögðust sátt. Hins vegar styðja einungis 11 prósent Samfylkingarfólks kvótakerfið og 5 prósent vinstri grænna. Karlar virðast mun ánægðari með kerfið en konur. Um 25 prósent karla styðja það, en einungis 10 prósent kvenna. Gallup hefur spurt um viðhorf til frjáls innflutnings á landbúnaðarvörum reglulega síðan 1993. Þá vildu 23 prósent frjálsan innflutning og 31 prósent var alfarið á móti. Nú styður um þriðjungur þjóðarinnar frelsið og andstaðan er komin niður í 25 prósent. Mikill munur mælist á afstöðu kynjanna til málsins. Um 41 prósent karla er alfarið fylgjandi frjálsum innflutningi en einungis 24 prósent kvenna. Það eru helst stuðningsmenn Samfylkingarinnar sem vill frjálsan innflutning. Um 43 prósent þeirra eru fylgjandi því. Um 36 prósent sjálfstæðismanna vilja frjálsan innflutning og vinstri grænir virðast ekki vera svo mótfallnir hugmyndinni heldur, a.m.k. ekki miðað við framsóknarmenn. Um 28 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna vilja frjálsan innflutning, en einungis 16 prósent framsóknarmanna, eins og áður segir. Könnunin var gerð dagana 11. til 24. ágúst. Úrtakið var 1.217 manns á aldrinum 18 til 75 ára, og var það valið með tilviljun úr þjóðskrá. Svarhlutfall var um 62%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×