Erlent

Aukin harka um forsetastólinn

Aukin harka færist í keppni þeirra George Bush og Johns Kerrys um forsetastólinn í Bandaríkjunum. Hins vegar er umdeilanlegt hvort umræðan sé málefnalegri fyrir vikið.  Það kvað við nokkuð hvassari tón í ræðu Johns Kerrys í Vestur-Virginíu í gær. Nýir liðsmenn í kosningaliðinu, gömul brýni úr innsta hring Bills Clintons, höfðu greinilega ákveðið að kominn væri tími á örlítið meiri hörku en Kerry hefur sýnt hingað til. Kerry spurði áheyrendur í Virginíu hvort þeir vildu fjögur ár enn þar sem störf eru flutt úr landi og í staðinn komi störf sem séu verr launuð en núverandi störf landsmanna. „Viljið þið fjögur ár enn af einstrengingslegri utanríkisstefnu sem einangrar Bandaríkin? Þetta er mjög einfalt. Ef þið voruð hrifin af síðustu fjórum árum og viljið fjögur slík í viðbót, þá skuluð þið segja fólki að kjósa George W. Bush því þetta er það sem þið fáið,“ sagði Kerry. Kerry sagði þetta kristallast í einum bókstaf, „W“, og vísaði þar til nafns forsetans, George W. Bush. Hann sagði stafinn standa fyrir „rangt“ (wrong): rangt val, rangt mat, rangan forgang og ranga stefnu fyrir Bandaríkin. Kerry vill kalla bandarískar hersveitir frá Írak á fyrsta kjörtímabili sínu og segir fullyrðingar Bush-stjórnarinnar um bandalag margra þjóða í Írak tóma þvælu. Langflestir hermennirnir séu bandarískir og mannfallið sé mest á meðal þeirra. Bandarískir skattgreiðendur borgi auk þess brúsann. Svörin létu ekki á sér standa. George Bush sagði á kosningafundi að Kerry hefði vaknað í gærmorgun með nýja kosningaráðgjafa og enn eina afstöðuna. „Allt í einu er hann aftur á móti. Það er sama hve oft Kerry skiptir um skoðun, það var rétt fyrir Bandaríkin þá og það er rétt fyrir Bandaríkin núna að Saddam Hussein skuli ekki vera lengur við völd,“ sagði Bush.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×