Innlent

Foreldrar grunnskólabarna mótmæla

Foreldrar grunnskólabarna hafa efnt til mótmælastöðu á Austurvelli klukkan tólf á morgun vegna yfirvofandi kennaraverkfalls. Mikil óvissa ríkir hjá foreldrum vegna stöðu mála en fátt bendir til þess að hægt verði að afstýra verkfalli. Fundur samningamanna í kennaradeilunni hefur staðið hjá ríkissáttasemjara í allan dag en ekkert hefur þokast í samkomulagsátt að sögn Eiríks Jónssonar, formanns Kennarasambands Íslands. Vaxandi líkur eru á að boðað verkfall í grunnskólum hefjist á mánudag þar sem engin lausn virðist liggja á samningaborðinu. Foreldrafélag Hagaskóla skoraði í dag á deilendur að leysa þann hnút sem málið er í og gera sitt ýtrasta til að samningar megi takast. Mikil óvissa ríkir hjá foreldrum grunnskólabarna vegna yfirvofandi kennaraverkfalls og hafa margir áhyggjur af þeim þúsundum skólabarna, sem þurfa að vera heima hjá sér, skelli verkfallið á. Foreldrar grunnskólabarna ætla að standa fyrir mótmælastöðu á Austurvelli klukkan tólf á morgun og hafa foreldrar á landsbyggðinni, og Heimili og Skóli, landssamtök foreldra, hvatt til samskonar aðgerða í sveitarfélögum landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×