Innlent

Kennt í grunnskóla sveitarfélags

Verkfall kennara hefur ekki áhrif á 6. bekk Sk í Flataskóla. Hann er eini bekkur skólans sem stundar nám í fjarveru grunnskólakennara og sá eini á landsvísu sem fær kennslu í skólum sveitafélaganna. Ástæðan er sú að bekknum kennir stundakennari um mánaðarskeið meðan umsjónarkennari þeirra er í leyfi. Sigurveig Sæmundsdóttir skólastjóri segir börnin 25 ánægð með skólaveruna. "Kennsla hefur gengið vel þessa daga sem verkfallið hefur staðið yfir. Þau fá aðeins kennslu umsjónarkennara en ekki hjá öðrum kennurum þannig að það myndast eyður hjá þeim í stundartöflunni," segir Sigurveig. Svava Pétursdóttir, formaður verkfallsstjórnar kennara, segir leiðbeinendur í meira en 33 prósenta starfi í stéttarfélagi kennara og því í verkfalli. "Víðsvegar eru stundakennarar sem kenna tvo til fjóra tíma á viku og eru ekki félagsmenn í Félagi grunnskólakennarara. Þeir eru því ekki í verkfalli. Þeir kenna kannski tvo til fjóra tíma á viku en skólastjórar gætu hafa fellt þá tíma niður," segir Svava. Í Flataskóla læra börnin íslensku, stærðfræði, samfélagsfræði og um tölvur hjá umsjónarkennaranum. Þau missa af verknámsgreinunum s.s. íþróttum og tónmennt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×