Innlent

Sjálfstæðismenn beygðir

"Það hefur tekist að beygja sjálfstæðismenn sem voru á móti sölubanninu á sínum tíma og ég er mjög ánægð með það," segir Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, um ákvörðun eftirmanns síns á stóli ráðherra. Hún er sérstaklega sæl með að stefnt skuli að því að gera veiðarnar sjálfbærar sem gerist með sölubanni og fleiri takmörkunum. "Ég er mjög ánægð með að veiðarnar verði ekki heimilaðar strax í haust því rjúpnastofninn þarf enn lengri tíma til að reisa sig við. Hann hefur þegar stækkað vegna veiðibannsins og mun dafna enn betur næsta árið." Upphaflegar hugmyndir Sivjar um aðgerðir til að endurreisa stofninn snérust um að banna sölu á rjúpu en með því vildi hún koma í veg fyrir veiðar í atvinnuskyni. Talið er að um tíu prósent skyttna veiði um 50 prósent rjúpna. Ekki náðist samstaða um sölubann í umhverfisnefnd þingsins á sínum tíma en núverandi umhverfisráðherra telur sig nú ganga að slíkum stuðningi vísum. Siv segir viðhorfsbreytinguna ánægjulega. "Þingmenn hafa sjálfsagt gert sér betur grein fyrir stöðunni og ég fagna því."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×