Innlent

Misræmi í rökstuðningi handtöku

Misræmis gætti í frásögn lögregluyfirvalda og hafnarstjórnar um hvers vegna komið hefði til handtöku forsvarsmanna samtaka sjómanna við Akureyrarhöfn í gær. Lögregla segir hafnarstjórn hafa farið fram á að mennirnir væru fjarlægðir, en því neitar Hörður Blöndal hafnarstjóri. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir að útgerðin hafi sent erindi til hafnarstjóra um að fyrirtækið vildi að tryggður yrði vinnufriður við höfnina til að hægt yrði að skipa upp úr Sólbaki AK 7. Hafnarstjóri heimsótti forsvarsmenn sjómanna um hádegisbil og lýsti því yfir að hafnarstjórnin tæki ekki afstöðu í málinu og gæti ekki kveðið upp úr um hvort löglegar aðgerðir í vinnudeilu væri að ræða eður ei. Þetta viðhorf staðfesti svo Hörður í samtali við blaðið. "Það er lögreglunnar að túlka hvort aðgerðirnar voru löglegar eða ekki og við tókum enga afstöðu í málinu. Við bara hörmum náttúrlega að menn gátu ekki komið sér saman," sagði hann. "Við kröfðumst þess ekki að farið yrði í ákveðna aðgerð gegn forystumönnum sjómannasamtakanna sem þarna voru, heldur var þetta ákvörðun sýslumanns sem byggir á hafnarreglugerð að hluta, en örugglega líka á fleiri atriðum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×