Erlent

Bræður Bigleys staðfesta tíðindin

Bræður Kenneth Bigleys, Bretans sem haldið hefur verið föngnum af mannræningjum í Írak síðustu vikur og sagt er að hafa verið líflátinn, hafa staðfest að bróðir þeirra sé ekki lengur á lífi. Þetta kom fram í sjónvarpsávarpi sem þeir fluttu fyrir stundu. Bigley var rænt 16. september og haldið með tveimur Bandaríkjamönnum sem skornir voru á háls skömmu síðar. Skammt er síðan bróðir Bigleys taldi sig hafa vissu fyrir því að Kenneth Bigley hefði verið færður öðrum hópi og að það gæti þýtt að unnt yrði að liðka fyrir lausn hans. Síðan hefur ekkert frést, þangað til í dag, þegar sjónvarpsstöð í Abu Dhabi flutti þær fréttir að Bigley hefði verið drepinn. Aftaka Bigleys er til á upptöku að sögn manns sem Reuters-fréttastofan ræddi við í Írak í dag. Myndbandið hefur ekki enn verið gert opinbert en maðurinn segist hafa séð það og að hans sögn les Bigley upp yfirlýsingu, klæddur appelsínugula gallanum sem hann var í á myndum sem gerðar voru opinberar á dögunum, á meðan sex mannræningjar standa fyrir aftan hann. Að lestrinum loknum sker einn mannanna hausinn af Bigley með hnífi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×