Innlent

Barnabætur breytast ekki

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að barnabætur hækki ekki á næsta ári. "Barnabæturnar munu ekki hækka á árinu 2005, heldur á árunum 2006 til 2007." Halldór segir að tekjuskatturinn lækki um 1 prósent á næsta ári og þar verði látið staðar numið í skattalækkunum í bili. Eftir sé að ákveða dagsetningar á þriggja prósentustiga lækkun tekjuskatts til viðbótar og sömuleiðis hækkun barnabóta. Halldór vildi ekki slá því föstu að barnabæturnar hækkuðu strax 2006, eftir væri að útfæra það. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, lýsti undrun sinni á ummælum forsætisráðherra enda hefði mátt skilja annað á honum í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær. Fyrirspyrjandinn, Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, tekur í sama streng. "Mér finnst ótrúlegt að heyra að forsætisráðherra skuli með afdráttarlausum hætti segja að barnabætur skuli ekki hækkaðar strax. Síðast í gær varðist hann gagnrýni Alþýðusambandsins á stefnu ríkisstjórnarinnar með vísan til væntanlegrar hækkunar. Það var með engu móti hægt að skilja Halldór öðruvísi en það yrði á næsta ári. Orð skulu standa og það á við um forsætisráðherra jafnt sem aðra." Aðspurður um hvort ekki hefði mátt skilja hann þannig á Alþingi í gær að barnabætur yrðu hækkaðar strax, segir Halldór Ásgrímsson að gagnrýni hans á málflutning Alþýðusambands Íslands hefði falist í því að benda á að ekki væri hægt að tala um þróun kaupmaáttar til langs tíma án þess að gera ráð fyrir hækkun barnabóta. Gylfi Arnbjörnsson bendir svo á að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir 3,5 prósenta verðbólgu en um 2,5 prósent í forsendum kjarasamninga. "Ef þetta gengur eftir munum við óska eftir endurskoðun kjarasamninga í nóvember á næsta ári enda myndi eins prósents kaupmáttaraukning sem gert var ráð fyrir étast upp með þessu móti."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×