Innlent

Stimpilgjöld felld niður?

Geir Haarde fjármálaráðherra segist reiðubúinn að endurskoða hvort lækka eigi eða jafnvel fella niður stimpilgjöld vegna endurfjármögnunar lána. Hann segir núverandi fyrirkomulag geta mismunað fjármálafyrirtækjum. Margrét Frímannsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi að vegna reglna um álagningu stimpilgjalda hefði breytt samkeppnisumhverfi á húsnæðislánamarkaði ekki getað leitt sem skyldi til kjarabótar fyrir almenning. Stimpilgjöldin væru samkeppnishamlandi og fælu í sér óréttlátan skatt sem bitnaði harðast á fjölskyldum sem væru að koma sér þaki yfir höfuðið, og smærri fyrirtækjum sem ættu erfitt með að nálgast lán erlendis frá. Margrét sagði það lágmarkskröfu að stimpilgjöld á skuldbreytingum og endurfjármögnun lána verði felld niður. Samkvæmt athugun sem Samtök atvinnulífsins fengu endurskoðunarfyrirtækið KPMG til að vinna þá þekkist það vart á hinum Norðurlöndunum að lagt sé á stimpilgjald í tengslum við endurfjármögnun lána.   Geir H. Haarde fjármálaráðherra benti á að oft hefði verið rætt um að lækka eða fella niður stimpilgjöld vegna lánskjara. Hann sagði núverandi fyrirkomulag geta í ákveðnum tilvikum mismunað fjármálafyrirtækjum og gert innlendum fyrirtækjum óhægara um vik í samkeppni við erlenda aðila.  Ráðherra sagðist opinn fyrir því að endurskoða gjaldkerfið í stimpilgjöldum en kvaðst ekki vilja gefa óábyrg fyrirheit um lækkun einhverja tiltekinna þátta, eins og kannski lægi undir af hálfu þeirra sem lögðu fram fyrirspurnina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×