Innlent

Eign í stað skulda

Ungt fólk mun geta nýtt lífeyrissparnað sinn við 25 ára aldur til húsnæðiskaupa nái hugmyndir Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns, fram að ganga. Guðlaugur kynnti hugmyndir sínar á opnum fundi Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, í gær en samkvæmt þeim mun vaxtabótakerfið verða lagt niður. Hyggst Guðlaugur leggja fram þingsályktunartillögu um málið. "Vaxtabótakerfinu er ætlað að auðvelda fólk að eignast húsnæði en kerfið er vinnuletjandi og hvetur fólk til að safna skuldum," segir Guðlaugur. Hann vill að nýtt kerfi sem byggist á eignamyndun ungs fólks í stað skuldsetningar leysi vaxtabótakerfið af hólmi. "Ungt fólk sem kemur úr námi og stofnar fjölskyldu þarf að leggja í miklar fjárfestingar til að koma þaki yfir höfuð sér. Vaxtabætur eru tekjutengdar og þær eru hluti af þeirri fátæktargildru sem ungt fólk lendir gjarnan í," segir Guðlaugur. Hugmynd Guðlaugs felur það í sér að námsmönnum verði gert kleift að leggja öll lífeyrisréttindi sín, sem þeir ávinna sér á námsárunum frá 16 til 25 ára aldurs, í húsnæðisparnað i vörslu lífeyrissjóða. Þegar námi lýkur geta þeir síðan valið um að nýta sparnað sinn til húsnæðiskaupa án þess að skattur verði dreginn af sparnaðinum eða leggja upphæðin í lífeyrissjóð. Samkvæmt útreikningum Guðlaugs næmi sparnaðurinn hjá hjónum eða sambúðarfólki með meðaltekjur 2,6 milljónum króna sem nýst gætu við útborgun í húsnæði. Á móti kemur þó að lífeyrisréttindi viðkomandi skerðast um 8 þúsund krónur á mánuði eftir að 67 ára aldri er náð. Guðlaugur segir kosti þessa kerfis mikla. "Í fyrsta lagi verður eignamyndun fólks mun hraðari. Í öðru lagi er fólki með þessu móti hjálpað til að eignast húsnæði í stað þess að borga vexti til að fá bætur. Í þriðja lagi ýtir kerfið undir sparnað, auk þess sem það er einfalt og auðskiljanlegt," segir Guðlaugur. Með því að afnema vaxtabótakerfið samhliða má spara 5 milljarða króna á ári og segir Guðlaugur að þeir fjármuni gætu nýst öðrum betur en þeim sem nú njóta vaxtabóta. "Fyrir þessa upphæð mætti til dæmis tvöfalda barnabætur," segir Guðlaugur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×