Innlent

Skatttekjur aukast um tíund

Skatttekjur ríkisins fyrstu átta mánuði ársins voru 170 milljarðar sem er um tólf prósentum meira en á sama tímabili í fyrra. Innheimtir skattar á tekjur og hagnað einstaklinga og lögaðila námu 53,4 milljörðum króna og hækkuðu um 10,4% frá sama tíma í fyrra, að því er fram kemur í Vefriti fjármálaráðuneytisins. Tekjur ríkissjóðs fyrstu átta mánuði ársins hækkuðu um tíu milljarða frá því á sama tíma í fyrra, eða um rúm sex prósent. Tekjurnar hækkuðu um 4 milljarða umfram hækkun gjalda og námu alls um 181 milljarði króna. Innheimta eignaskatta hækkaði einnig á milli ára eða um 15 prósent að raungildi. Af öðrum tekjuliðum ríkissjóðs má nefna að um 13,5% aukning var í innheimtu tekna af virðisaukaskatti og svipaða sögu er að segja af öðrum sköttum á vöru og þjónustu. Veruleg aukning var meðal annars í innheimtu vörugjalda af ökutækjum, eða 27,5%, sem endurspeglar aukinn innflutning bifreiða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×