Innlent

Össur gagnrýnir aðgerðarleysi

Sjálfstæðisflokkurinn er að notfæra sér verkfallið til að ýta undir hugmyndir um einkavæðingu skólakerfisins að sögn Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar. Í ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær gagnrýndi Össur ríkisstjórnina harkalega vegna aðgerðaleysis í kennaraverkfallinu. Hann sagði að vegna hugmynda um einkavæðingu þráaðist Sjálfstæðisflokkurinn við því að ríkisstjórnin kæmi að lausn deilunnar. "Krafa manna sem tilheyra Sjálfstæðisflokknum um fleiri rekstrarform er ekkert annað en krafa um einkavæðingu skólakerfisins. Það er markmið Sjálfstæðisflokksins," sagði Össur. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkurinn sé á engan hátt að nýta sér verkfallið til að ýta undir hugmyndir um einkavæðingu skólakerfisins. "Það er engin spurning að verkfall mun leiða til þess að almenningur mun kalla á eftir breytingum á skólakerfinu. Verkfallið hefur nú þegar leitt til þess að fólk notar í auknum mæli netið og kennsluforrit í námi sínu og þetta mun eflaust flýta þróun skólakerfisins. Það hefur lengi verið á stefnuskrá hjá mörgum sjálfstæðismönnum að auka einkavæðingu - líka í skólakerfinu." Össur sagði ábyrgðarleysi af ríkisstjórn að segja um verkfall sem varðar þriðjung heimila í landinu að það kæmi henni ekki við. "Það er ábyrgðarleysi sem stappar nærri gáleysi. Það var þessi ríkisstjórn sem bjó til samningana sem grunnskólakennarar miða sig eðlilega við. Það var þessi ríkisstjórn sem breytti skattkerfinu þannig að hátt á annan milljarð króna minna koma árlega í hlut sveitarfélaganna. Það er því þessi ríkisstjórn sem ber ábyrgð á slæmri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna." Össur gagnrýndi einnig framsóknarmenn. "Þegar formaður Framsóknarflokksins segir að verkfallið komi sér ekki við, þá er hann verkfæri Sjálfstæðisflokksins við að koma í gegn einkaskólum og einkavæðingu menntakerfisins." Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, sagði við Fréttablaðið að forsætisráðherra hefði ekki áhuga á að svara gagnrýni Össurar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×