Innlent

Braut gegn fósturdóttur sinni

Maður var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa haft samfarir og önnur kynferðismök við fósturdóttur sína. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir að hafa káfað á vinkonu hennar og fyrir vörslu barnakláms. Fósturdóttir mannsins var fjórtán ára þegar hann káfaði á brjóstum hennar innanklæða. Þá hafði hann í nokkur skipti samfarir við stúlkuna á salerni og á skrifstofu á vinnustað sínum og í hjónarúmi á heimili sínu þegar hún var fimmtán ára gömul. Maðurinn er einnig dæmdur fyrir að hafa káfað tvisvar innanklæða á brjóstum fimmtán ára vinkonu fósturdótturinnar og þannig sært blygðunarsemi hennar. Þá er maðurinn sakfelldur fyrir vörslu barnakláms en lögregla fann í húsleit á heimili hans fjölmargar kvikmyndir og ljósmyndir sem sýndu börn á klámfenginn og kynferðislegan hátt. Manninum var gert að greiða fósturdótturinni 1,2 milljónir króna í miskabætur og til að greiða vinkonu hennar 150 þúsund krónur. Þá var honum gert að greiða eina milljón króna í málskostnað. Fósturdóttir mannsins flutti að heiman eftir að hún sagði frá kynferðisofbeldinu. Hún fékk takmarkaðan stuðning fjölskyldunnar. Henni var meðal annars meinað að hitta yngri systkini sín um tíma. Sálfræðingur sem hefur haft stúlkuna til meðferðar segir kynferðisofbeldið hafa valdið henni alvarlegum, tilfinningalegum og félagslegum erfiðleikum og geti haft að einhverju leyti áhrif á persónuleika hennar og félagsmótun. Fósturfaðir og móðir stúlkunnar reyndu margoft að fá hana til að falla frá málinu. Fósturfaðir hennar sagði meðal annars að hún skyldi draga kæruna til baka því hann yrði aldrei sakfelldur fyrir annað en barnaklámsefnið. Móðir stúlkunnar bað stúlkuna ítrekað að láta málið niður falla og hugsa með því til yngri systkina sinna. Móðirin spurði dóttur sína jafnframt að því hvort hún og fósturfaðir hennar hefðu ekki gert þetta saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×