Innlent

Úr bakherberginu

Kurr í Hafnarfjarðar-krötum Hugmyndir framtíðarhóps Samfylkingarinnar um einkavæðingu í skólum hefur farið fyrir brjóstið á mörgum flokksmönnum. Guðmundur Árni Stefánsson og Lúðvík Geirsson leiðtogar flokksins í Hafnarfirði eru þannig ekki ánægðir með að opnað sé á Áslands-skóla-ástand eins og einn flokksmaður orðaði það. Sama máli gildir um fleiri þingmenn. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur hins vegar bent á að hugmyndir hópsins séu síður en svo endanleg stefna en erfiðlega hefur gengið að sannfæra jafnt flokksmenn sem fjölmiðla um það. Ef vel er að gáð eru hugmyndirnar meira eins og matseðill sem flokksþingið velur sér rétti á. Engu að síður þykir sumum Samfylkingarmönnum skjóta skökku við að einn ötulasti verkmaður þess hóps sem samdi tillögur þar sem opnað var á einkavæðingu er Sigfús Johnsen, kenndur við Nýsi sem hefur einmitt tekið að sér "einkavædd" verkefni sem hafa verið á könnu hins opinbera. Úr Vimma-vinafélaginu í hvíta húsið Vakið hefur nokkra undrun meðal lögfróðra manna að Bolli Þór Bollason skuli hafa verið skipaður ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins en ekki settur, eins og raunin var um Ólaf forvera hans Davíðsson fyrsta kastið. Ekki síður hefur röksemdafærslan þar sem vitnað er til ákvæðis um tilflutning ríkisstarfsmanna á milli starfa. Sérfróðir lögfræðingar segja hins vegar nánast fordæmislaust að þessi regla sé notuð til að hækka mann í tign, þótt henni sé oft beitt til að flytja menn til í svipuð störf. En er Halldór Ásgrímsson að hygla flokksbróður? Ekki ef miðað er við síðustu afskipti Bolla Þórs af stjórnmálum en þá var hann í framboði fyrir Bandalag jafnaðarmanna eða Vimma-vinafélaginu eins og gárungarnir kölluðu það. En framsóknarmenn leynast á óvæntustu stöðum eins og kunnugt er og þarf ekki að leita út fyrir veggi "hvíta hússins" við Lækjargötu. Þannig varð Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi blaðamaður á Eintaki og Morgunblaðinu sannkristinn framsóknarmaður með undra skjótum hætti. Best varðveitta leyndarmálið Starfsmönnum Alþingis er trúandi fyrir leyndarmálum. En hvort 10 ára afmælishátið EES samningsins fyrir viku átti að vera leyndarmál er ekki vitað. Auglýsing var um fundinn á vefsíðu Alþingis kvöldið fyrir fund og er þar hvorki getið til um stað né stund! Kannski engin furða að afmælishátíðin fór að mestu fram í kyrrþey... Líta upp til blaðamanna á ný Meira um Alþingi því ákvörðun um að koma þingfréttariturum fyrir í glugglausum kytrum í kjallara Alþingis hefur nú verið breytt. Halldór Blöndal, forseti Alþingis og Guðmundur Árni Stefánsson, varaforseti brugðust hart við og hafa endurreist bolabás. Kannski rann þeim blóð til skyldunnar enda var Halldór um árabil blaðamaður Morgunblaðsins og Guðmundur Árni Stefánsson ritstjóri Alþýðublaðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×