Innlent

Davíð aftur til starfa

Davíð Oddsson utanríkisráðherra hefur störf í dag eftir veikindaleyfi. Guðni Ágústsson verður því ekki Íslandsráðherra þessa vikuna, eins og útlit var fyrir. Davíð hefur í dag störf sem utanríkisráðherra eftir veikindaleyfi í kjölfar krabbameins sem hann greindist með í sumar. Á tímabili leit út fyrir að Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra yrði Íslandsráðherra þessa viku, þar eð allir aðrir ráðherrar en hann og Davíð yrðu staddir erlendis. En þar sem Davíð er kominn aftur í slaginn verða ráðherrarnir tveir hér á landi út vikuna. Af Davíð er það annað að frétta að ellefu þingmenn breska Íhaldsflokksins hafa skrifað undir bréf þar sem Davíð eru færðar hamingjuóskir og hrós fyrir að hafa setið við völd einna lengst allra forsætisráðherra hægra megin við miðju í Evrópu. Davíð fær í bréfinu sérstakt hrós fyrir dugnað sinn við að einkavæða ríkisfyrirtæki og draga úr miðstýringu, stuðning sinn við NATO og ákveðni sína í því að halda sjálfstæði Íslands í fiskveiðimálum. Þá er sagt að Davíð hafi sýnt það í gegnum tíðina að hann sé sannur vinur Bandaríkjanna og Bretlands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×