Innlent

Rannveig forseti Norðurlandaráðs

Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var kosin forseti Norðurlandaráðs við lok fundar þess í Stokkhólmi í gær. "Ég met það persónulega mjög mikils að hafa verið valin í þetta embætti," segir Rannveig. Hún segir að mikilvægasta markmið sitt innan norræns samstarfs sé að vernda og þróa norræna velferðarkerfið. Hún vill jafnframt að barist verði gegn fátækt og gegn verslun með börn og konur í nánu samstarfi við Eystrasaltsríkin og Rússland. Norðurlandaráð hefur ákveðið að fjögur málefni verði í brennidepli á næsta ári í forsetatíð hennar; að halda áfram að ryðja úr vegi landamærahindrunum á Norðurlöndum, að styrkja norrænt samstarf og hlutverk þess í nýrri Evrópu, að byggja brýr milli ESB/EES samstarfsins og Rússlands og að styrkja sjálfbæra vistfræði- og efnahagsþróun á Vestur-Norðurlöndum, Norðurkollusvæðinu og á Barentshafssvæðinu. Næsta þing Norðurlandaráðs verður haldið á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×