Innlent

Saksóknari þarf leyfi Hæstaréttar

Ríkissaksóknari hefur lagt fram beiðni til Hæstaréttar um áfrýjun vegna dóms Héraðsdóms Reykjaness þar sem frestað var refsingu manns sem beitti eiginkonu sína ofbeldi. Í Hæstarétti hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort áfrýjun verður veitt. Í málum þar sem refsingu er frestað verður ekki áfrýjað nema með leyfi Hæstaréttar. Á síðasta ári bárust Hæstarétti 46 beiðnir um áfrýjun og voru 22 samþykktar, 22 synjað en tvær beiðnir voru dregnar til baka. Árið 2002 bárust Hæstarétti 53 beiðnir og 25 samþykktar en 28 synjað. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa tekið eiginkonu sína hálstaki og hrint henni til og frá þannig að hún tognaði á hálsi og hné og hlaut yfirborðsáverka á andliti og hársverði. Dómarinn ákvað að fresta refsingu í ljósi aðstæðna og atvika sem meðal annars voru að maðurinn hafi lagt hendur á konuna í mikilli bræði og segir í dómnum að gögn málsins hnígi frekar að því að konan kunni að hafa valdið bræðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×