Erlent

Ráðist gegn vígamönnum í Mosul

Á annað þúsund bandarískir og íraskir hermenn réðust gegn vígamönnum í Mosul til að koma á kyrrð í borginni. Vígamenn réðust á lögreglustöðvar í borginni meðan athygli Bandaríkjahers beindist að mestu að Falluja og náðu lögreglustöðvunum á sitt vald. 1.200 bandarískir hermenn réðust inn í Mosul og nutu aðstoðar herþotna og þyrlna sem skutu á vígamenn úr lofti og vörpuðu sprengjum á þá. Áfram er barist í Falluja og Baquba. Fáir vígamenn hafa gefist upp í Falluja en 1.200 eru sagðir hafa fallið í bardögum við bandaríska og íraska hermenn. Engar upplýsingar eru að hafa um mannfall meðal almennings. Talið er að 150 vígamenn hafi tekið sér stöðu í Baquba, sótt hefur verið að þeim síðustu daga og tugir fallið. Bandarískir hermenn og íbúar Falluja unnu að því að grafa lík Íraka sem féllu í borginni. Þrátt fyrir að stærstur hluti borgarinnar sé á valdi hermanna er enn barist þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×