Erlent

Til marks um aukna hörku BNA

Til eru þeir sem telja kvíðvænlegt að Condoleezza Rice taki við stöðu utanríkisráðherra Bandaríkjanna af Colin Powell og telja það til marks um að enn verði aukin harka í utanríkispólitík landsins. Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og formaður Félagsins Ísland-Palestína, telur skiptin ekki benda til að "stríðsforsetinn" ætli að laga til í utanríkismálunum þjóðar sinnar. "Maður hefur ekki heyrt annað en að hún hafi verið harðlínumegin í þessu liði hans," segir Sveinn Rúnar. Hans Kristján Árnason hagfræðingur tekur undir að skiptin séu kvíðvænleg. "Menn telja að Powell hafi trúlega sjálfur verið sjálfur á móti árásinni í Írak," sagði hann og taldi að með afsögn hans hljóðnuðu hófsamari raddir í harðasta kjarna repúblíkana í Hvíta húsinu. Hans Kristján taldi erfiðara að spá fyrir um hvort mannaskiptin snertu íslensku þjóðina með beinni hætti. "Hún var búin að kynna sér varnarmálin og þótt hún teljist til harðlínunnar er ekki þar með sagt að hún sé fjandsamleg Íslendingum," sagði hann. Jón Hákon Magnússon, formaður Almannatengslafélags Íslands og fjölmiðlamaður, telur um margt heppilegt fyrir Íslendinga að Rice skyldi taka við. Hann segir að sem herforingi og Nato-maður hafi Colin Powell skilið bæði þarfir Íslands og varnir í Norður Atlantshafi. "Condoleezza Rice er hins vegar sérfræðingur í Rússlandi og gömlu Sovétblokkinni og áttar sig því líka á tengslum landa og mikilvægi svæðisins," segir hann. Þá telur Jón Hákon að tal um "hauka" í Hvíta húsinu dálítið klisjukennt. "Núna kemur í ljóst hvort hún er það eða ekki. Hún er hins vegar mikil menningarmanneskja, hefur meira að segja komið fram sem klassískur píanisti. Hún er örugglega eldklár manneskja og ég held hún sé ekki sá "haukur" sem menn vilja vera láta," segir hann og bendir á að enginn í Bandaríska stjórnkerfinu hafi jafn góðan aðgang að Bandaríkjaforseta, en hún er vinur fjölskyldunnar og hefur eitt drjúgum tíma með Bush.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×