Innlent

Vilja hætta samræmdum prófum

Menntakerfið er allt of miðstýrt og því verður að draga úr vægi aðalnámskrár og hætta að leggja samræmd próf fyrir nemendur grunnskólans. Þetta er niðurstaða hóps sem fjallaði um menntamál á Flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í gær. Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, stýrði hópnum. Hún segir að núverandi grunnskólastefna sé ekki nægilega árangursrík. Læra verði af öðrum löndum sem betur hafi gengið. "Finnar hafa komið vel út í alþjóðlegum samanburði og könnunum en þar eru ekki samræmd próf," segir Katrín. "Þeir hafa hins vegar stöðluð próf sem kennarar geta lagt fyrir nemendur þegar þeim hentar. Þetta er sú leið sem við leggjum til að verði farin. Það er tómt mál að tala um fjölbreytni í skólastarfi þegar það er aðeins metið út frá fjórum bóklegum greinum eins og nú er gert." Katrín segir að veita verði skólunum aukið frelsi til að skipuleggja sjálfir sitt starf. Nú fari mikið fé og mannafli í að skilgreina nákvæmlega allt skólastarfið í gegnum aðalnámskrá, sem væri betur varið í skólunum sjálfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×