Innlent

Reynir á efnahagskerfið

Skattalækkanir og staða efnahagslífsins var megininntak ræðu Halldórs Ásgrímssonar á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins sem fram fór í gær. Þar sagði hann að kaupmáttur fólks hefði aukist um um það bil 40 prósent frá því að Framsóknarflokkurinn komst í ríkisstjórn fyrir tæpum áratug og aukningin verið um 55 prósent í lok kjörtímabilsins. Hann gagnrýndi harðlega formenn stjórnarandstöðuflokkanna fyrir að gagnrýna fyrirhugaðar skattalækkanir og sagði þær hækka ráðstöfunartekjur þeirra sem hafa lágar og miðlungstekjur mest. Einnig sagði hann að niðurfelling eignarskatts skapaði meira svigrúm fyrir sveitarfélögin á landinu, því það væri sama fólkið sem greiddi eignarskatta og fasteignaskatta. "Þið voruð ósammála okkar aðferðum að auka verðmætasköpun í landinu," sagði Halldór og beindi þar orðum sínum til stjórnarandstöðunnar, sem hefur gagnrýnt stefnu stjórnvalda í stóriðjumálum. Þá sagði hann að nú reyndi mikið á efnahagskerfið vegna þenslu, en þó væri engin ástæða til að örvænta um stöðugleikann. Hér á landi væri stjórnmálalegur stöðugleiki og öflugt fjármálakerfi sem gæti staðið undir þenslunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×