Erlent

Kosningar í Írak ákveðnar

Tilkynnt var í gær að fyrstu kosningarnar í Írak eftir fall Saddams Hussein verði haldnar 30. janúar. Ekki á að fresta kosningum vegna átaka í landinu. "Kjörstjórn hefur einróma samþykkt að íhuga 30. janúar sem kjördag," sagði formaður kjörstjórnar, Abdel Hussein al-Hindawi, við fréttamenn í Bagdad. Hann sagðist vona að Sameinuðu þjóðirnar myndu koma að kosningunum. Bandarískir og íraskir hermenn börðust í gær við vígamenn í höfuðborginni og annars staðar í landinu. Að minnsta kosti sjö manns létust í bardögum í nokkrum bæjum súnnímúslima. Vegna átakanna og ákalls róttækra súnnímúslima að hundsa kosningarnar hefur verið efast um að kosningarnar geti farið fram svo snemma. Í framboði verða að minnsta kosti 126 flokkar og einstaklingar, sem samþykktir hafa verið af 198 umsækjendum, til þingsins, svæðaþings Kúrda og til 18 héraðsstjórna. Kosningarnar verða næsta stóra skrefið í að færa stjórn landsins frá bandarísku herstjórninni til Íraka, sem áætlað er að gerist í júní á næsta ári. Bandaríski herinn hefur þegar tilkynnt að dvöl hermanna verði framlengd og fleiri herdeildir verði sendar til Íraks fyrir kosningarnar. Tilkynningin um kosningar er sögð mikilvæg fyrir ríkjaráðstefnu um enduruppbyggingu Íraks, sem hefst í Egyptalandi í dag. Þar munu koma saman aðilar frá G8-löndunum, Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, Arababandalaginu og Samtökum íslamskrar ráðstefnu og nágrannar Íraka, auk þátttakenda frá Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×