Innlent

Hefðu farið öðruvísi að

Formaður Samfylkingarinnar segir skattalækkanir ríkisstjórnarinnar vera ranglátar og að tímasetning þeirra sé slæm. Sjálfur lofaði hann 16 milljarða skattalækkunum fyrir síðustu kosningar. Hann segist mundu hafa staðið við þau loforð en fara aðrar leiðir. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, er ósáttur við boðaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar og segir þær vera ranglátar. Hann segir þær breikka bilið á milli þeirra sem hafa mikið og þeirra sem þurfa meira. Kostnaður við skattalækkunartillögurnar er metinn á 22 milljarða. Vegna andstöðu Samfylkingarinnar er rétt að rifja upp að flokkurinn lofaði skattalækkunum upp á 16 milljarða fyrir síðustu kosningar. Hann segir að þar hafi verið að ræða um aðgerðir sem miðað hafi að auknum jöfnuði. Til hafi staðið að lækka matarskattinn, en hækka barnabætur og skattfrelsismörkin. Alls lofaði Samfylkingin að persónuafslátturinn yrði hækkaður um 10 þúsund krónur á mann, virðisauki af mat lækkaður um helming og þremur milljörðum varið í auknar barnabætur. Samfylkingin hefur hins vegar gagnrýnt tímasetningu þessara skattalækkanna ríkisstjórnarinnar. Össur segist telja óráðlegt að fara í þessar skattahækkanir núna. Samfylkingin hefði notað töluvert af því svigrúmi sem kann að skapast til þess að lækka skatta á þá sem minnst hefðu, en slíkt svigrúm sé ekki enn í hendi. Össur segir Samfylkinguna ætla að leggja til breytingartillögu á skattatillögum ríkisstjórnarinnar á þann veg að virðisaukaskattur á matvæli verði lækkaður úr 14% í 7%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×