Innlent

Skuldirnar lækki um 750 milljónir

Gert er ráð fyrir að greiða skuldir Reykjavíkurborgar niður um 750 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar sem afgreidd var á fundi borgarstjórnar sem stóð til klukkan hálfþrjú í nótt. Auk þess segir R-listinn að peningastaða borgarinnar muni batna þannig að skuldir borgarsjóðs muni lækka enn frekar, enda verði aðhalds gætt án þess að það komi niður á þjónustu við borgarana. Áætlað er að tekjur borgarinnar á næsta ári losi 40 milljarða og verði rúmlega þremur og hálfum milljarði meiri en í ár. Það er rösklega níu prósenta aukning. Meðal þjónusutverkefna má nefna nýjan skóla í Grafarholti, byggingu nýs Korpuskóla og grunnskóla í Norðlingaholti, uppbyggingu leikskóla og þátttöku í uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Af aðhaldsaðgerðum má nefna að áfram verður útgjaldarammi hinna ýmsu málaflokka þrengdur , þriðja árið í röð en í árslok 2005 eiga þær aðgerðir að hafa skiilað rösklega milljarðs sparnaði. Fulltrúar minnihlutans bentu meinlega galla í fjárhagsáætluninni, til dæmis hafi gleymst að taka tillit til kostnaðarauka vegna kjarasamninga við kennara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×