Sport

Rose látin fara

Stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hefur ákveðið að segja upp samningnum við Latoya Rose hjá kvennaliði Keflvíkinga sem kom í stað Reshea Bristol í síðustu viku. "Hún stóð ekki undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar, alveg langt í frá," sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur. "Hún hjálpaði okkur ekki neitt og það gæti í rauninni hver sem er af bekknum gert það sama og hún var að gera. Við væntum náttúrlega meira af atvinnumönnunum og ætlumst til að þeir leggi sig manna mest fram á vellinum." Að sögn Sverris eru frekari útlendingamál í athugun hjá Keflvíkingum. "Það er auðvitað mjög slæmt að þurfa að skipta aftur um erlendan leikmann og við urðum af einum titli út af þessu. Við erum þó með fína stöðu í deildinni og þurfum bara að koma okkur á sporið aftur," sagði Sverrir Þór. Rose lék tvo leiki með Keflavík og töpuðust báðir. Hún skoraði 17 stig í fyrri leiknum en 4 í þeim seinni og hitti aðeins úr 9 skotum af 34 í leikjunum tveimur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×