Erlent

Vopnahlé fyrir botni Miðjarðarhafs

Skjótt skipast veður í lofti fyrir botni Miðjarðarhafs. Leiðtogar Ísraels og Palestínu sem hittast á sögulegum leiðtogafundi á morgun hafa ákveðið að tilkynna um vopnahlé á milli stríðandi fylkinga. Þá hafa þeir líka þekkst heimboð Bush Bandaríkjaforseta um annan leiðtogafund í Washington í vor. Condoleezza Rice, nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur borið með sér ferskan anda og nýglæddar vonir í heimsókn sinni til Ísraels og Palestínu. Í dag sagði hún að enginn skyldi efast um stuðning Bandaríkjamanna í ferlinu á þessari stundu því enginn vafi léki á stuðningi forsetans eða hennar. „Bandaríkin þurfa ekki að taka þátt í þessu öllu en þau þurfa að vera til staðar þegar á þarf að halda,“ sagði Rice. Miklar vonir eru bundnar við fund Abbas og Sharons á morgun í Egyptalandi og þeir hafa í framhaldi samþykkt að hitta Bush í Washington. Að afloknu góðu dagsverki fyrir botni Miðjarðarhafs hélt Rice aftur af stað og nú er förinni heitið beint í gin ljónsins, til Parísar. Vandlega verður fylgst með öllu því sem Rice hefur að segja í París enda er litið á þetta sem úrslitatilraun til að lappa upp á samskipti stjórnvalda í Frakklandi og Bandaríkjunum. Michele Alliot-Marie, varnarmálaráðherra Frakklands, segir augljóst að á einn eða annan hátt sé hér um sáttaumleitarnir að ræða gagnvart Evrópubúm og sér í lagi Frökkum. „Og við viljum einnig rétta fram sáttahönd,“ segir Alliot-Marie. Dominique Moisi fréttaskýrandi segir eina aðalástæðuna fyrir því að Frakkar vilji eðlilegri samskipti við Bandaríkin sé Evrópa. Ef Frakkar vilji leika stórt hlutverk í umræðum innan Evrópu í framtíðinni geti þeir ekki staðið einir og barist við Washington um leið. „Svo vegna Brussels, vegna Evrópu, þarfnast Frakkar eðlilegra sambands við Bandaríkin,“ segir Moisi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×