Innlent

Rýnihópur komi að Laugavegsmáli

Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, hyggst í dag á fundi ráðsins leggja til að skipaður verði rýnihópur um útlit nýbygginga, viðbygginga og breytinga við Laugaveg. Á hópurinn að vera skipulagsráði til stuðnings við mat á tillögum um uppbyggingu við Laugaveg á grundvelli samþykkts deiliskipulags eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá skipulagsráði. Jafnframt á hópurinn að meta hvort samþykkja beri frekari skilmála um útlit nýrra húsa við Laugaveg. Samkvæmt tillögunni á hópurinn að vera skipaður fimm fagmönnum skv. tilnefningu arkitektadeildar Listaháskóla Íslands og byggingarlistadeildar Listasafns Reykjavíkur og fulltrúa íbúa skv. tilnefningu hverfisráðs miðborgar að höfðu samráði við Þróunarfélag miðborgar, eins og segir í tilkynningunni. Hópnum til fulltingis verða jafnframt fulltrúar frá embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa. Í tillögunni segir enn fremur: „Í ljósi markmiða deiliskipulagsins, að efla Laugaveg en varðveita um leið sérkenni hans, er talið eðlilegt að rýnihópur verði skipaður til að vera skipulagsráði til stuðnings við mat á útliti nýbygginga, viðbygginga og breytinga á þessum lykilstað í borginni. Þannig megi enn frekar tryggja að uppbygging næstu ára falli vel að umhverfi sínu. Þá fær hópurinn einnig það verkefni að leggja mat á þörf fyrir að skilgreindir verði frekari skilmálar vegna leyfilegrar uppbyggingar við Laugaveg.“  Hópurinn mun verða skipaður í tilraunskyni til þriggja ára en eftir þann tíma verði lagt mat á störf hans og fyrirkomulag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×