Innlent

Vildu láta reyna á meirihluta

Sjálfstæðismenn báru fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag um að viljayfirlýsing borgarstjórnar og ríkisstjórnarinnar um sölu á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun yrði borin undir atkvæði. Komið hefði fram andstaða hjá vinstri - grænum sem skapaði óvissu um hvort meirihluti væri fyrir málinu. Borgarstjóri segir það af og frá. Eftir að borgarfulltrúar höfðu samþykkt að slík atkvæðagreiðsla mætti fara fram lýsti Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri því yfir að hún myndi bera upp tillögu um að vísa málinu frá. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir ótrúlegt að borgarstjóri þori ekki að setja eigin viljayfirlýsingu í dóm borgarstjórnar. Það staðfesti vandræðagang og klofning innan Reykjavíkurlistans í málinu en vinstri - grænir hafi áskilið sér allan rétt til að hafna sölunni á hlut Reykjavíkurborgar þrátt fyrir viljayfirlýsinguna. Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir málið hins vegar óumdeilt. Hingað til hafi ekki tíðkast að vera með stuðningsyfirlýsingar við dagleg störf borgarstjóra. Í því ljósi sé uppákoman kómísk. Hún hafi hins vegar fullt og óskorað traust borgarfulltrúa, bæði í minnihluta og meirihluta, og það hafi komið glögglega fram á fundi borgarstjórnar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×