Innlent

Viðgerð er ofarlega á dagskrá

Það blasir við að ráðast þarf í margvíslegar endurbætur á Þjóðleikhúsinu, segir Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra. Ekki hefur þó verið ákveðið hvenær lagt verður til fjármagn í þær endurbætur, en slík fjárúthlutun er ofarlega á lista hjá menntamálaráðuneytinu. "Stóra málið er að gera við húsið að utan og lekann. En það er ljóst að það er fleira sem bjátar á. Slíkt verður skoðað á næstu árum, en viðgerðir eru að verða aðkallandi." Steingrímur segir að á þessu ári hafi 67 milljónum verið veitt til leikhússins til endurbóta; tíu milljónir í hefðbundið viðhald auk 57 milljóna til úrbóta í bruna og rafmagnsöryggi. Í vetur hafi síðan komið í ljós hversu mikilvægar þær úrbætur eru þegar eldur kviknaði í Þjóðleikhúskjallaranum. Á síðasta ári var afgangur af rekstri Þjóðleikhússins, sérstaklega vegna aukinna sjálfsaflatekna. Steingrímur segir að ekki standi til að draga úr framlögum til leikhússins, þó svo að það afli meiri tekna sjálft.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×