Innlent

Fagnar niðurstöðu könnunar

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fagnar niðurstöðu könnunar Gallups um að meirihluti þjóðarinnar sé fylgjandi því að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Siv hefur lagt fram frumvarp um að banna reykingar á stöðunum ásamt tveimur öðrum þingkonum. Samkvæmt könnun Gallups eru 61,3 prósent fólks á aldrinum 18-69 ára fylgjandi því að staðirnir séu reyklausir og um 86 prósent segjast myndu fara oftar á staðina ef þeir væru reyklausir. Siv segir niðurstöðuna ánægjulega. Hún sýni að það sé greinilega tímabært að taka þetta skref. Það komi í ljós að það muni ekki skaða veitingahúsarekstur þó að lögin yrðu samþykkt, það hafi líka sést í öðrum löndum þar sem þetta skref hafi verið tekið.  Siv segir löngu tímabært að menn viðurkenni að óbeinar reykingar séu skaðlegar og að fólk sem vinni á veitingastöðum hafi sama rétt til að anda að sér hreinu lofti. Þetta sé frelsismál fyrir þann hóp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×