Innlent

Sólarhringsvaktir ekki í augsýn

Sólarhringsvaktir á skurðstofum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eru ekki í augsýn. Þetta kom fram í máli heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag. Það kostar um 40 milljónir króna að hafa sólarhringsvaktir á skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en sautján þúsund manns búa á svæðinu. Málshefjandi, Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að nauðsynlegt væri að sólarhringsvaktir yrðu á skurðstofunni bæði vegna íbúafjöldans og ekki síður vegna fjölda flugfarþega sem fara um Keflavíkurflugvöll. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði að um mitt sumar yrðu teikningar tilbúnar af nýjum skurðstofum á stofnuninni en að sólarhringsvakt yrði ekki komið á fyrr en í fyrsta lagi þegar þær væru tilbúnar. Stefnt væri að því að bæta vaktþjónustuna frá því sem nú væri en hann teldi að endurbætur á skurðstofunni væri algjör forsenda fyrir því að efla þjónustuna eins og mögulegt væri. Kjartan Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði mikilvægt að stofnunin fengi fjármagn til að hefja uppbyggingu sem fyrst.   Jón Gunnarsson var ósáttur við svör ráðherra og ítrekaði að þá skoðun sína að nauðsynlegt væri að koma á sólarhringsvöktum á skurðstofunni. Hann sagði að þegar hlustað væri á umræðu á þingi um að það væri afar langt að keyra í flug frá Reykjavík til Keflavíkur fyrir fullfrískt fólk væri skrítið að heyra þau rök á móti að það væri afar stutt frá Keflavík til Reykjavíkur þegar keyra þyrfti dauðveikt fólk á spítala. Þetta væru rök sem héldu ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×