Innlent

Færri veik börn til útlanda

Ferðum barna frá Íslandi í læknismeðferðir erlendis hefur fækkað á síðastliðnum fimm árum. Þetta kom fram í skriflegu svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur sem lagt var fram á Alþingi í gær. Fækkunin er mest áberandi í ferðum vegna æxla, beinmergsígræðslna, augnsjúkdóma og í ferðum vegna ótilgreindra læknismeðferða. Fjöldi ferða þar sem tveir aðstandendur fara með börnunum hefur haldist nokkuð jafn hlutfallslega en nokkuð er um að aðeins einn aðstandandi fylgi þeim. Í skýringu frá Tryggingastofnun ríkisins kemur fram að þeir sem ekki fái stuðning til að senda tvo aðstandendur með barni geti sótt um styrk úr minningar- og gjafasjóði Landspítalans. Þar fái flestir úrlausn sinna mála. Þá er bent á að þrátt fyrir að stofnunin samþykki fylgd tveggja aðstandenda fari þeir ekki ávallt báðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×