Innlent

Nefskattur til RÚV eftir þrjú ár

Eftir tæp þrjú ár munu allir landsmenn, sextán ára til sjötugs, greiða 13.500 krónur árlega til Ríkisútvarpsins í stað afnotagjalda, samkvæmt nýju frumvarpi um Ríkisútvarpið. Frumvarpinu var dreift í dag. Það gerir ráð fyrir að Ríkisútvarpinu verði breytt í sameignarfélag en sala þess verði bönnuð. Menntamálaráðherra fer með eignarhlutinn en fimm manna stjórn félagsins verður kjörin á Alþingi. Menntamálaráðherra skipar svo þessa sömu menn í stjórn sem hefur það hlutverk að hafa yfirumsjón yfir rekstri sameignarfélagsins. Stjórnin ræður útvarpsstjóra, ákveður kjör hans og leysir hann frá störfum. Útvarpsstjóri tekur allar ákvarðanir um mannabreytingar og útvarpsráð verður lagt niður. Lögin eiga að taka gildi strax en afnotagjöldin verða afnumin frá og með ársbyrjun 2008. Þess í stað verður tekinn upp nefskattur, 13.500 krónur á alla á aldrinum 16-70 ára. Þeir sem eru undir ákveðnum tekjumörkum þurfa ekki að greiða gjaldið en talið er að 160 þúsund manns muni greiða það og 22 þúsund lögaðilar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×