Innlent

Meirihlutaviðræður í kvöld

"Ég á fulla von á að mér verði veitt umboð á fundinum til að mynda meirihluta fyrir hönd fulltrúa sjálfstæðismanna," sagði Ágúst Þór Bragason, bæjarfulltrúi á Blönduósi. Í gærkvöldi fór fram fundur sjálfstæðismanna um myndun nýs meirihluta á Blönduósi en stefnt er að viðræðum í kvöld við H-lista vinstri manna og óháðra. Ágúst átti ekki von á öðru en umboðið fengist og strax í kvöld yrði gengið til samninga við H-listamenn en þegar hafa óformlegar viðræður átt sér stað. Upp úr meirihlutasamstarfi H-lista og bæjarmálafélagsins Hnjúka slitnaði á mánudag vegna trúnaðarbrests í kjölfar þess að Valdimar Guðmannsson, formaður Hnjúka, heimilaði byggingu þjónustuhúss án þess að slíkt væri tekið fyrir í bæjarstjórn. Valdimar segist ekki vita sjálfur hvað olli slitunum en segir ástæðuna eflaust aðra en gefin hafi verið upp. "Ég framfylgdi einungis því sem löngu var ákveðið og tel víst að eitthvað annað hafi valdið þessari kergju sem kom upp í kjölfarið." Er þetta í annað sinn sem meirihlutasamstarf flokka á Blönduósi springur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×