Sport

Hugsanlega hættur að spila

Það er óhætt að segja að það hafi verið í mörg horn að líta fyrir Keflvíkinginn Sverri Sverrisson í vetur. Hann lék lykilhlutverk í Íslandsmeistaraliði Keflavíkur og stýrði einnig kvennaliði félagsins til Íslandsmeistaratitils. Hann sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að síðasta tímabil hefði verið mjög strembið, þótt allt hafi gengið vel að lokum. "Þetta var mikið púsluspil og í raun ótrúlegt að þetta hafi gengið svona vel miðað við það að ég hafði engan aðstoðarþjálfara með kvennaliðið. Ég þurfti reyndar að fá Guðjón Skúlason til að taka tvær æfingar fyrir mig vegna Evrópukeppninnar en það var það eina. Þetta var mikið andlegt álag og ég veit ekki hvort ég hef áhuga á því að fara í gegnum annan svona vetur. Ég myndi í það minnsta vilja fá aðstoðarþjálfara," sagði Sverrir. Hann sagðist eiga von á því að hann myndi stýra kvennaliðinu á komandi tímabili. "Það hefur ekki verið skrifað undir neitt en stjórnin talaði við mig fyrir nokkru síðan og lýsti yfir áhuga á því að hafa mig áfram. Ég vil líka halda áfram enda stefni ég því að leggja þjálfun fyrir mig í framtíðinni." Sverrir lék mjög vel með Keflavík í vetur og var af flestum talinn vera besti varnarmaður deildarinnar. Hann sagði að eins og staðan væri í dag þá væri hann líklega hættur að spila. "Mér líður þannig í dag en það getur vel verið að ég fái fiðring í tærnar þegar nær dregur móti og ég byrji að spila á nýjan leik. Ég er hins vegar búinn að fá mig fullsaddan af körfubolta í bili og ætla að nota næstu vikur til að hvíla mig," sagði Sverrir Sverrisson, tvöfaldur Íslandsmeistari með Keflavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×